Húnavaka - 01.05.2012, Page 111
H Ú N A V A K A 109
Guðmundur Sigurðsson lést heima á Fossum árið 1928. Engilráð, kona
hans, lést árið 1904. Nokkru áður en afi dó hafði sonur hans, faðir minn, tekið
við búsforráðum á Fossum. Faðir minn kvæntist móður minni, Guðrúnu
Þorvaldsdóttur, árið 1925. Hún var eyfirskrar ættar og kom hér sem kaupakona
vestur í Húnavatnssýslu. Þau Fossahjón eignuðust þrjá syni sem allir urðu
bændur á Fossum. Þeir eru: Sigurður, 1927-2012, Guðmundur Sigurbjörn,
1930-2010 og undirritaður, Sigurjón, fæddur 1935.
Frumbýlisárin munu hafa verið erfið því í hönd fór heimskreppan mikla um
1930. Þá fer haustlambið niður í átta krónur. Samt ræðst faðir minn í það
stórvirki árið 1932 að virkja bæjarlækinn til raforkuframleiðslu. Vegleysi í
dalnum var þá nánast algjört. Faðir minn varð að vinna fimmtán dagsverk til
að koma rafalnum, sem var þyngsti hlutinn til rafstöðvarinnar, á áfangastað.
En stöðin komst upp og malaði gull í fimmtíu ár. Túrbína stöðvarinnar var
smíði Bjarna í Hólmi í Landbroti og var númer 61. Hún bilaði aldrei.
Faðir minn var meðalmaður á hæð, alla tíð grannvaxinn og holdskarpur,
afar léttur á fæti og mikill göngumaður. Starfsamur var hann með afbrigðum
og vann til síðasta dags. Hann varð bráðkvaddur í rúmi sínu 29. ágúst 1976.
Hann byrjaði ungur fjallaferðir á heiðina og var snemma gjörkunnugur
heiðarlandinu. Hann tekur við gangnastjórninni af föður sínum um miðjan
annan áratug tuttugustu aldar en afi fer síðast í göngur 1926.
Gangnastjóri er nánast einvaldur yfir liði sínu þegar á fjöllin er komið. Þetta
er því allmikil ábyrgðarstaða og reynir á þann sem stjórnar, ef t.d. veður
breytist til hins verra þegar göngur eru hafnar. Ég held að faðir minn hafi verði
mjög farsæll og öruggur í sinni gangnastjóratíð. Af sínum samtímamönnum
var hann talinn afar öruggur að rata, svo sumir töldu að hann gæti ekki villst.
Guðmundur Guðmundsson á Kóp. Klettagil sunnan við Fossa.