Húnavaka - 01.05.2012, Side 118
H Ú N A V A K A 116
JÓN ARASON, Blönduósi:
Strönd
Ein helsta röksemd manna fyrir stofnun verslunarstaðar við Blönduós árið 1876 var að
höfnin á Skagaströnd væri ekki nógu góð. Þar höfðu áföll verið tíð árin á undan og tjón orðið
mikið. En yrði höfn við Blönduós nokkuð skárri? Það vissi auðvitað enginn fyrir, þó margir
hefðu trú á því, en reynslan ein mundi skera úr um það.
Þegar talað var um hafnir á þessum tíma, var ekki átt við einhver manngerð mannvirki,
því þau voru engin til, heldur var átt við að skipalega væri örugg undan landi, þar sem skip
gætu legið þó eitthvað væri að veðri. Hver verslun hafði svo sína báta til upp- og útskipunar.
Í landi var yfirleitt notast við lausabryggjur að athafna sig við.
Á þessum tíma, þegar verslunarskipin voru oftast lítil seglskip, var mikið atriði að
botnfesta væri svo góð að akkeri héldu og skipin slitnuðu ekki upp þó hvessti verulega. Góður
haldbotn reyndist vera framundan Blönduósi og virtust skip þar örugg nema taugar
hreinlega slitnuðu og það gerðist yfirleitt ekki nema gerði hrein aftakaveður. Þau gerði
vissulega af og til og var ekki löng bið eftir að reyndi verulega á höfnina. Það varð strax á
þriðja ári sem hún var í notkun.
Besta haustveðrátta var í Húnaþingi haustið 1878, og hafa sláturstörf og
önnur vinna á Blönduósi því eflaust gengið vel þetta haust. Um miðjan októ-
ber lágu tvö skip á legunni fyrir framan ósinn og voru menn sem óðast að skipa
út í þau sláturvörum frá verslununum á staðnum, jafnframt því sem skipað var
í land kornvöru o.fl.
Í byrjun árs hafði verslun Munchs og Bryde keypt verslanir Hillebrandts við
Húnaflóa, á Hólanesi fyrir 12.000 kr., á Borðeyri fyrir 6.000 kr. og á Blönduósi
fyrir 3.000 kr. Allmikill vörulager hefur verið á Skagaströnd, því fyrir hann
greiddu þeir 42.000 kr. Einnig var skonnortan Juno keypt fyrir 14.000 kr. og
jaktin Anine á 10.000 kr.
Þetta síðastnefnda skip, sem var 67 tonn, var einmitt annað þeirra skipa sem
var þarna á legunni haustið 1878. Anine hafði komið til Skagastrandar 8.
september frá Kaupmannahöfn en var nú komin til Blönduóss, eins og áður
sagði. Hitt skipið, skonnortan Lina, 108 rúmlestir, hafði lagt upp frá Bergen 7.
september til Möllersverslunar. Það kom til Blönduóss 25. september. Ennþá
var unnið að losun og lestun skipanna hinn 21. október þegar veður skyndilega
skipti um til hins verra. Það gerði ofsaveður af norðri með mikilli fannkomu
og hörkufrosti, sem hélst í þrjá daga samfleytt. Á fjórða degi slotaði veðrinu og
var bjartviðri þann dag en daginn eftir skall veðrið á aftur og mundu menn
ekki eins frosthart, fannkomumikið og langvinnt hret á þessum árstíma.