Húnavaka - 01.05.2012, Síða 119
H Ú N A V A K A 117
Úr þessu birti upp og var stillt veður með töluverðu frosti til mánaðamóta
en þá gerði nokkurra daga sunnanátt með þíðu. En hvernig reiddi skipunum
af í óveðrinu?
Í áhöfn Anine voru M. Julius Hillebrandt skipstjóri, bróðir Friðriks
Hillebrandts verslunarstjóra, Peter Mathias Bertelsen stýrimaður, Július Nabel
háseti og Alfred Oscar Nielsen matreiðslumaður. Auk þeirra hafði verið á
skipinu hásetinn Sigurður Finnsson en hafði verið afskráður skömmu áður.
Vorið 1877 hafði annar Íslendingur, Jóhannes Guðmundsson, bróðir
Hólmfríðar húsfreyju á Blöndubakka, verið skipverji á Anine en fallið útbyrðis
og drukknað. Í skipsdagbókinni segir Hillebrandt skipstjóri að laugardaginn
19. október hafi verið SV kaldi og skýjað loft. Losað var og lestað allan þann
dag. Undir kvöld fór hann í land með verkamönnum en komst ekki um borð
aftur vegna sjógangs og brims. Kl. 8 var sett vakt við dæluna. Sunnudaginn
20., kl. 6:30, var stillt og skýjað. Þá var báturinn sendur í land með farm af
rúgi en vegna brims og sjógangs sneri hann aftur og var losaður og hífður upp
á síðuna. Kjöttunnum var nú hlaðið niður í lestina. Því var lokið kl. 11. Þá var
hvass vindur af ANA. Settar voru út 60 faðma keðjur, bæði bakborðs- og
stjórnborðsmegin, einnig kaðall en keðjurnar héldu. Þær voru festar við
mastrið og keðjurnar settar fastar í vindurnar. Alla nóttina á eftir var ofsafengið
rok af NA en allt hélt um nóttina. Mánudagsmorguninn um kl. 4 snerist
vindurinn til ANA bálhvass með snjókomu og háum hvítfyssandi öldum. Kl.
3:15 slitnaði kaðaltaugin og 10 mín. síðar bakborðskeðjan. Skipið rak,
stagfokkan var rifuð en skipið rak hraðar í brimrótinu. Stagfokkan var sett
aftur, stjórnborðskeðjan látin fara og stefnan sett á Þingeyrasand. Um kl. 4
stóð skipið fast í brimrótinu og þar sem skipið lá á hliðinni gekk sjórinn yfir
það. Vel gekk skipsmönnum þó að komast í land.
Í aukarétti sýslunnar, sem settur var að Þingeyrum 24. október 1878,
skipaði Lúðvík Blöndal sýslumaður feðgana, Ásgeir Einarsson og Jón
Ásgeirsson á Þingeyrum, skoðunarmenn, að tilmælum Hillebrandts skipstjóra.
Þeir skiluðu svohljóðandi skýrslu daginn eftir:
Við undirskrifaðir, sem í gær erum fyrir aukarétti Húnavatnssýslu útnefndir til þess að
skoða og álíta hversu miklar skemmdir jaktskipið Anine hefur hlotið, sem sleit upp af
Blönduóshöfn 21. þ.m. og strandaði sama dag á Þingeyrasandi, eins og hvort mögulegt sé
að koma skipinu aftur á flot og gjöra það sjófært, gefum hérmeð svolátandi skýrslu yfir
skoðunargjörð okkar: Stjórnborðssíða skipsins er algerlega lömuð þannig: að innri
byrðingurinn er víða leystur frá böndunum. Þilfarið er gengið upp hérumbil í 8 þuml. og
víða laust frá öldustokknum (skamdekket). Öll sú kornvara sem er á skipinu er blaut, því
skipið er mjög lekt, og að voru áliti með öllu ósjófært. Ekki álítum við að mögulegt sé að
gjöra við skipið eða koma því til sjávar. Skýrslu þessa erum við tilbúnir að staðfesta með
sáluhjálpareiði.
Þingeyrum 25. október 1878
Ásgeir Einarsson Jón Ásgeirsson