Húnavaka - 01.05.2012, Qupperneq 120
H Ú N A V A K A 118
Dagana 1. og 2. nóvember var síðan haldið uppboð á strandgóssinu og var
það selt á 4.538,20 kr. Þar af fór skipsflakið á 272 kr. Það keypti Jóhann Möller
kaupmaður á Blönduósi.
Þá víkur sögunni að hinu skipinu. Í áhöfn þess voru auk C. F. Scheffer
skipstjóra, Kristján Larsen stýrimaður, Thorbjörn Sjurden matreiðslumaður
og hásetarnir Ole Olsen, Ole Mikkelsen og Anders Kristoffersen. En svona
lýsir skipstjórinn atburðum:
Sunnudaginn hinn 20. október 1878. Vindurinn austlægur og stefndi í storm og
þykknaði í lofti. Lét stjórnborðsakkerið falla og slakaði akkerisfestinni út eins og hægt var.
Settar voru blakkir á báðar akkerisfestar framan við spilið. Kl. 4:30 síðdegis slitnaði
legufærið í dráttarakkerið. Kl. 8 skipið lensað og settur maður á vakt á dekkið.
Mánudaginn 21. október var norðaustlægur stormur með þungu lofti, snjókomu og
mikilli ölduhæð. Skipið rykkti mikið í legufærin og slitnuðu taugarnar í þau margsinnis. Á
bakborðslegufærið var jafnframt akkeriskaðallinn settur fastur með blökk. Kl. 8 skipið
lensað, en allt hélt um nóttina.
Þriðjudaginn 22. s.m. NA lægur stormur með þungu lofti, snjókomu og háum öldum.
Skipið rykkti enn mikið í festarnar. Og kl. 3:30 slitnaði bakborðsfestin. Þó strax væri reynt
að koma við vörnum, rak skipið og strandaði 15 mínútum síðar, tæpri ½ mílu sunnan við
Blönduós. Kl. 4:30 um morguninn yfirgaf áhöfnin skipið sem var svo hátt uppi í fjörunni
að hægt var að hlaupa í land af skutnum, milli laganna.
Frásögn skipstjórans var lögð fram fyrir sjórétti Húnavatnssýslu á Blönduósi
26. október 1878. Sama dag skipaði sýslumaður skoðunarmenn til að meta
tjón á skipinu. Voru tveir kirkjusmiðir valdir til þess. Skipunarbréfið er svo-
hljóðandi:
Lárus Þórarinn Blöndal sýslumaður í Húnavatnssýslu kunngerir, að ég samkvæmt
tilmælum skipstjóra C. F. Scheffer hefi fyrir sjórétti sýslunnar í dag útnefnt ykkur, herra
snikkari Friðrik Pétursson á Svínavatni og herra snikkari Sigurður Helgason á Blönduósi,
til þess nákvæmlega að skoða og álíta hversu miklar skemmdir skonnortskipið Lina, sem um
aðfararnóttina 22. þ.m. sleit upp af höfninni á Blönduósi, og strandaði undir Hjaltabakka
bökkum hefur hlotið, og kveða upp álit ykkar um hvort tiltækilegt eða mögulegt sé að koma
skipi þessu aftur á flot, eða gjöra það haffært.
Skoðunar og álitsgjörð þessa, sem þið eigið að framkvæma með samvisku sem og eftir
bestu þekkingu, ber ykkur á sínum tíma að fram leggja fyrir réttinum og staðfesta með ykkar
sáluhjálpareiði.
Undir minni hendi og embættisinnsigli þ.t. Lárus Þ. Blöndal
Skoðunarmenn skiluðu eftirfarandi skýrslu.
Við undirskrifaðir, sem hinn 26. þ.m. erum fyrir sjórétti Húnavatnssýslu útnefndir til
þess að skoða og álíta, hversu miklar skemmdir skonnortskipið Lina, sem aðfaranótt 22.
þ.m. sleit upp af höfninni á Blönduósi, og strandaði sömu nótt undir Hjaltabakkabökkum
hefur hlotið, sem og að kveða upp álit okkar um hvort tiltækilegt eða mögulegt sé að koma