Húnavaka - 01.05.2012, Síða 121
H Ú N A V A K A 119
skipi þessu aftur á flot eða gjöra það haffært. Gefum hérmeð svolátandi skýrslu um
skoðunargjörð þessa:
Bakborðssíðan öll meir og minna brotin og lömuð að neðan. Stýrið brotið um efstu
lykkjuna, og með öllu burt, á stjórnborðssíðunni eru neðstu plankarnir brotnir að neðan og
burtu. Það sem sést af kjölnum að framan er brotið, og mikil líkindi til, að sá hluti kjölsins,
sem er sandorpinn sé meira og minna laskaður ef ekki með öllu brotinn.
Stefnið er gengið frá plankaendunum að neðan. Frammastrið gengið upp hérum ¾ þuml,
en afturmastrið hérum bil ¼ þuml. Að innan er kjölrúmið bilað og boltar gengnir upp og
hefur þar gengið sundur inní skipið neðst á bakborðssíðunni. Skipið álítum vér með öllu
ósjófært og ekki tiltök að gera það haffært, eins og við líka álítum ómögulegt að koma skipinu
á flot þar sem bæði eru sker framundan því, og engin tæki til þess. Skýrslu þessa erum við
reiðubúnir að staðfesta með okkar sáluhjálpareiði.
Blönduósi 28. okt. 1878
Sigurður Helgason Friðrik Pétursson
Daginn sem þeir félagar skiluðu skýrslu sinni fyrir réttinum, skipaði
sýslumaður aðra menn til að skoða og meta vörurnar sem voru um borð í
skipinu. Þeir voru Pétur Bjarnason verslunarþjónn og H. Holm beykir.
Þeir vottuðu samdægurs fyrir réttinum, að kjöttunnurnar væru að meira
eða minna leyti skemmdar, bæði með brotnum stöfum, lausum gjörðum og
botnar úr sumum. Gærur voru allar blautar, saltið úr tveimur pokum, mjög
skemmt, en alveg runnið úr hinum.
Uppboð var síðan haldið á skipinu og varningi úr því í Hjaltabakkafjöru 4.
og 5. nóv. Alls seldist fyrir 3.758,50 kr. Þar af seldist flakið á 265 kr. og keypti
það Friðrik Möller á Skagaströnd.
Viku síðar sendi sýslumaður landshöfðingja 1.200 kr. af uppboðspeningunum
til að greiða fyrir uppihald og kostnað af utanferð skipshafnanna.
Þetta er að mestu tekið upp úr skjölum sýslumanns á Þjóðskjalasafninu. En
séu einhverjar vitleysur í skýrslum skipstjóranna eru þær vafalaust því að
kenna að ég hef ekki lesið rétt af blöðunum. Þeir höfðu þó báðir góða rithönd.
Þessi skipströnd sem hér sagði frá voru að því er ég best veit, þau fyrstu í sögu
Blönduóss en hreint ekki þau síðustu.
Næsta óhapp var af öðrum toga. Skipin sem slitnuðu upp við Blönduós
haustið 1878 voru á vegum Hólanesverslunar og verslunar Möllers. Þriðja
verslunin, Höepfnersverslun missti svo skipið Herthu 16. apríl 1880. Það mun
hafa strandað á Hafnarifi kl. 12 í góðu veðri. Sjö manna áhöfn komst í land
á báti. Skipið, sem var á leið til Blönduóss, var dregið af skerinu 18. apríl og
til Skagastrandar. Var þá 5 feta djúpur sjór í lestinni. Friðrik Möller
verslunarstjóri keypti flakið á 630 kr. Hann var verslunarstjóri
Höepfnersverslunar á Skagaströnd og stjórnaði jafnframt versluninni á
Blönduósi en frá áramótum 1882 var ráðinn sérstakur verslunarstjóri fyrir
Höepfnersverslun á Blönduósi. Sá hét Friðrik Valdemar Davíðsson 21 árs og
kom frá Akureyri. Þó ungur væri vann hann sér fljótt traust heimamanna.
Sýslumaður gaf honum þann vitnisburð í bréfi til landshöfðingja, að hann sé