Húnavaka - 01.05.2012, Síða 123
H Ú N A V A K A 121
Undir þetta kvittar Lúðvík Blöndal sýslumaður að rétt sé uppritað.
Þarna segir Jensen skipstjóri frá aðdraganda þess að skipinu var siglt í
strand. Frá mánudeginum 25. september þegar veður var enn kyrrt og skipið
var lestað með laxi, kjöti og ull, auk bátsfylli af kjölfestu, til þess er
stjórnborðsfestin slitnaði og hann varð að láta höggva hina festina og hífa upp
segl til að sigla skipinu sem lengst upp í fjöru, til að bjarga mannskap og
vörum. Veður hafði farið versnandi frá kvöldi mánudags til miðvikudagsins að
komið var ofsaveður með haugabrimi. Það er eftirtektarvert að hann getur um
björgun áhafnar (sex manna) í björgunarstóli, með aðstoð úr landi.
Skipið fór upp í fjöruna skammt fyrir sunnan Blönduós.
Mánudaginn 10. október 1892 var haldið uppboð á Blönduósi á hinu
strandaða skipi með öllu tilheyrandi og á vörum þeim sem í því voru. Mikið
var selt af vörum, bæði útflutningi og innfluttri vöru sem í því var. Pétur
Sæmundsen keypti 2 báta á 53 og 17 kr. Hið brotna skip keypti Árni á
Geitaskarði á 155 kr. Segl og allt annað lauslegt var selt stakt. Þann 27. apríl
1893 var svo haldið annað uppboð á Blönduósi á dauðum munum tilheyrandi
hlutaðeigendum úr skipsfélaginu. Þarna voru seldir ýmsir munir úr skipinu,
m.a. kamína, kokkhús, stýrishús, bugspjót, kaðlar, keðjur, dælur, masturspartar,
stigar, gluggar, afturstefni, framstefni, hurðir o.m.fl.
Samtals seldist fyrir 601,55 kr. Þarna hafa eflaust margir gert góð kaup.
Þessir skipsskaðar sem hér hefur verið minnst á eru þeir einu sem ég veit
um, utan eins skipsstrands er varð haustið 1916 á Hjaltabakkafjöru sunnan við
Blönduós. Þar strandaði Elín, lítið flutningaskip, á svipuðum stað og Lina
hafði strandað 1878.
Það hlýtur að teljast mikil mildi að enginn maður skuli hafa farist í þessum
óhöppum. Einnig má telja vel sloppið að ekki hafi fleiri óhöpp orðið á þessu
tímabili því annar aðalkomutími skipanna var á haustin. Og haustbrimin við
Blönduós geta verið mögnuð.
(Flest er þetta efni tekið saman úr bréfasafni sýslumanns á Þjóðskjalasafninu.)
❄❄❄