Húnavaka - 01.05.2012, Page 147
H Ú N A V A K A 145
SIGURÐUR PÉTURSSON frá Merkjalæk:
Ábending
Í Húnavöku 2010 skrifar Bragi Guðmundsson mjög svo ágæta grein undir heitinu: ,,Sveitin
má ekki verða verkamanninum að selstöð“. Þar telur hann m.a. upp handskrifuð sveitarblöð
sem hafa komið út í sýslunni. Óskar hann eftir ábendingum ef ske kynni að einhver vissi
um fleiri sveitarblöð sem ekki ,,hafa rekið á fjörur” hans.
Af því tilefni vil ég benda á tvö sveitarblöð sem Bragi nefnir ekki. Í bókinni
Hrakhólar og höfuðból eftir Magnús Björnsson er þáttur um ,,Jónas í
Brattahlíð”. Þar segir frá því að Jónas hafi staðið fyrir stofnun handskrifaðs
blaðs árið 1905 sem var kallað Húsgangur. Segir að blaðið hafi ekki orðið
langlíft en ,,geymst hafa aðeins þau tvö tölublöð er Jónas var ritstjóri að“.
Í sama þætti segir frá handskrifuðu blaði sem hét Vonin. Séra Stefán M.
Jónsson (1852-1930) á Bergsstöðum (1876-1886), síðar prestur á Auðkúlu, stóð
fyrir stofnun blaðsins. Líklegt er að séra Stefán hafi verið brautryðjandi í
útgáfu handskrifaðra sveitarblaða. Séra Stefán ,,var sjálfur ritstjóri og átti í því
flestar greinar“. Erlendur Guðmundsson segir einnig frá blaði séra Stefáns í
ævisögu sinni Heima og heiman. Hann notar hugtakið sveitablað í frásögn
sinni. Segir Erlendur svo frá á bls. 29: ,,Séra Stefán M. Jónsson fékk veitingu
fyrir Bergsstöðum 1876 og litlu síðar stofnaði hann sveitablað er hét Vonin.
Var hann ritstjórinn en Jónas Jónsson frá Rugludal í Blöndudal ritari. Átti
blaðið einkum að flytja búnaðarhugvekju sem að gagni mætti koma en saga
var neðanmáls, þýdd. Gekk blaðið rétta boðleið um hreppinn og var ein örk í
fjögra blaða broti.
Ekki hafði blaðið lifað lengi er það kom greinilega í ljós að það mundi ekki
þrífast fyrir persónulegum illdeilum óróaseggjabræðranna, Jóhanns í Mjóadal
og Jósafats á Gili Sigvaldasona. Þegar lengra leið og Vonin var orðið að
illdeilublaði og ritstjórinn ekki nægilega strangur að útiloka greinar þessar, var
blaðið lagt niður og hafði þá lifað eitt eða á annað ár.”
Ég hef spurst fyrir um Vonina á skjalasöfnum án árangurs. Ef einhvers
staðar skyldu leynast tölublöð af Voninni eða Húsgangi þætti mér mikill
fengur að fá vitneskju um það.