Húnavaka - 01.05.2012, Page 176
H Ú N A V A K A 174
Pétur Mikael Sveinsson,
Tjörn
Fæddur 27. júní 1927 – Dáinn 23. ágúst 2011
Pétur fæddist á Tjörn á Skaga. Hann var sjöunda barn þeirra Guðbjargar
Rannveigar Kristmundsdóttur og Sveins Mikaels Sveinssonar.
Hann missti föður sinn fimm ára en eftir það ólst hann upp með móður
sinni og systkinum. Heima fyrir ólst hann upp við hin almennu störf en 16 ára
gamall fór hann til sjós og var á vertíðarbátum í 17 vertíðir.
Þann 13. september 1960 kvæntist Pétur Sigurlaugu Kristjánsdóttur frá
Steinnýjarstöðum. Þau bjuggu allan búskap sinn á Tjörn, í tvíbýli við Svein,
bróður Péturs og Maríu, konu hans.
Börn þeirra eru tvö: Halldóra, maður hennar er Guðmundur Kr. Jónsson
og eiga þau tvö börn. Jónas Mikael, kona hans er Svava Eyrún Ingimundardóttir.
Þau eiga þrjá syni.
Pétur var traustur fjölskyldumaður, áreiðan legur, stóð þétt með sínu fólki og
þrátt fyrir að börn hans byggju fjarri æskuheimilinu með fjöl skyldum sínum
fylgdist hann ávallt með hag allra.
Pétur var alltaf mikill áhugamaður um veiði-
skap, bæði til sjós og lands. Hann átti bátinn
Sólfara HU-5 í félagi við nágranna sína og reru
þeir í mörg ár frá Kálfshamarsvík. Aðallega voru
stundaðar hrognkelsaveiðar á vorin en jafnframt
var róið til fiskjar þegar veður og tími gafst til.
Mörg ferðin var farin til að leggja fyrir silung í
nærliggjandi vötnum, stundum var til þess notaður
lítill trébátur en ekki var borið mikið traust til
hans því hann hlaut nafnið Lífsháski.
Staðfastur og einarður var Pétur, hann fylgdi
sínum skoðunum og var maður orða sinna. Sem
ungur maður hafði hann gott líkamlegt atgervi og
átti mörg spor í Skagaheiðinni við smalamennsku og veiðar. Hann var
vinnusamur og viljugur að gera öðrum greiða ef hann mögulega gat. Pétur las
mikið og hafði gaman af bókum og má segja að það hafi verið hans áhugamál
að safna þeim.
Pétur hafði góða reglu á öllu sínu. Hann hafði skýra sýn á lífið, þjóðfélagsmál
og stjórnmál. Vel var hann heima í málefnum líðandi stundar, athugull og
glöggur. Hann var sjálfstæður og hann vildi helst ekki vera upp á aðra kominn.
Pétur var góðum gáfum gæddur og hann var gæfumaður. Hann vann vel úr
aðstæðum sínum, bjó yfir eðliskostum sem hann nýtti, kostum sem gerðu hann
að virtum manni í samfélaginu. Hvar sem hann tók til hendinni var hann
fumlaus og styrkur, vandaður maður til orðs og æðis.