Húnavaka - 01.05.2012, Page 187
H Ú N A V A K A 185
við, húsum og jörð og var snyrtimenni í allri umgengni. Þau hjón stóðu saman
um hvaðeina. Ingibjörg var mikilvirk húsmóðir og einlæg gestrisni var jafnan
í fyrirrúmi í þeirra garði.
Börn þeirra hjóna urðu fimm, sem upp komust, en yngsta barnið, dreng
sem var skírður Kári, misstu þau aðeins nokkurra daga gamlan. Hin börnin
eru talin í aldursröð: Sigurbjörg, húsfreyja á Egg í Hegranesi. Maður hennar
er Þórður Pálmar Jóhannesson og eiga þau fjögur börn. Guðmundur bóndi á
Eiríksstöðum. Lárus bóndi í Bröttuhlíð. Jóhanna Lilja, húsfreyja í Köldukinn,
hennar maður er Finnur Karl Björnsson og eiga þau fjögur börn. Guðríður,
húsfreyja í Ási í Hegranesi, hennar maður er
Magnús Gunnar Jónsson og eiga þau þrjú börn.
Árið 1978 fluttist fjölskyldan í Bröttuhlíð að
næsta bæ, Eiríksstöðum en þá jörð hafði
Guðmundur, sonur þeirra, keypt og reist þar nýtt
íbúðarhús. Áfram áttu þó Valtýr og Ingibjörg
lögheimili í Bröttuhlíð ásamt syni sínum, Lárusi,
þar hafði Valtýr sínar kindur og heyjaði handa
þeim meðan heilsa og kraftar entust.
Valtýr í Bröttuhlíð var maður hógvær og lítt
fyrir að standa í sviðsljósi en lagði góðum málum
lið. Hann kunni best við sig heima við búsýslu og
kyrrlát hversdagsstörf. Engum duldist, sem
honum kynntist, að þar fór grandvar og gegn
maður sem ekki mátti vamm sitt vita í neinu. Hann var fulltrúi hinnar gömlu
íslensku bændastéttar, sem hafði iðni, nægjusemi og heiðarleika að leiðarljósi í
lífinu. Fjölskyldan og heimilið var honum kærast alls og því helgaði hann
krafta sína.
Valtýr var greindur maður og athugull, fylgdist vel með hræringum
þjóðlífsins, hafði sínar skoðanir á mönnum og málefnum, sem hann fór ekki
dult með, hver sem í hlut átti og var misjafnlega sáttur við uppátæki samtímans.
Hann las mikið, var minnugur á allt sem fyrir augu og eyru bar og hafði yndi
af góðum kveðskap.
Valtýr var þrekmenni og heilsuhraustur lengst af ævi en fyrir nokkrum
árum tók hann að kenna öndunarerfiðleika, líklega af heymæði, sem ágerðust
eftir því sem árunum fjölgaði. Lengi vel annaðist Ingibjörg mann sinn heima
af einstakri umhyggju en síðasta árið varð hann að dveljast á Heilbrigðis-
stofnuninni á Blönduósi. Hann lést á Heilbrigðisstofnuninni og var útför hans
gerð frá Bergsstaðakirkju 11. janúar 2012.
Sr. Ólafur Þ. Hallgrímsson.