Húnavaka - 01.05.2013, Blaðsíða 101
H Ú N A V A K A 99
hvort komi stóri skjálftinn eða ekki. Eins held ég að það sé með hjartalínuritin,
þau sýna að annaðhvort slær hjartað áfram eða ekki.
Næst koma svo röntgenmyndatökurnar, þar er maður látinn standa í
skítakulda, hálfnakinn og sagt að halda niðri í sér andanum, röntgentæknarnir
smella af og fara svo bakvið til að framkalla myndina og spjalla saman og fá
sér jafnvel kaffi, maður stendur þarna skjálfandi án þess að anda eins lengi og
lungun leyfa. Loks springur maður og er passlega búinn að ná eðlilegum lit
eftir andnauðina þegar komið er fram og sagt að allt sé óbreytt og maður megi
fara upp á O-deild.
Hafið þið hugsað af hverju þessi deild er kölluð O-deild? Handlæknisdeildin
er H-deild, Lyfjadeild er L-deild og svo framvegis en O-deild fyrir bæklun ar-
deild, hvaðan úr skrambanum er það eiginlega fengið. Ég fór að velta þessu
fyrir mér meðan ég beið eftir viðtölunum uppi á deildinni fyrir innskriftina.
Nafnið O-deild? Ég held að Oið sé notað af því að það er hringur og táknar
eilífðina. En hvað minnir á eilífðina þarna inni á deildinni? Heldur er það nú
fátt fyrir utan sumt af húsgögnunum og nokkrir starfsmenn sem gleymst hafa
þarna inni síðan á forsögulegum tíma. Og svo eru það auðvitað líka blaða-
bunkarnir sem eru á biðstofunni, þar sem yngsta blaðið núna var skítug Vika
frá Surtseyjargosárinu 1963.
Það þurftu margir að tala við mig fyrir aðgerðina, röntgentæknar, hjúkrun-
arforstjóri, yfirhjúkrunar(kona)fræðingur, aðstoðarlæknir, aðgerðar læknir sem
krassaði með tússpenna á löppina sem saga átti, svæfingalæknir, hjúkrunarnemi
og ég held nánast allir starfsmenn sjúkrahússins hafi komið að undirbúningnum
að frátalinni líkdeildinni. Þó sá ég einhverja starfsmenn hlaupa eftir göngunum
með hvít lök og tommustokk. Þeir töluðu ekki við mig en horfðu samt ein-
kenni lega á mig.
Þessi dagur fer sem sagt allur í bið, þarna er maður undirbúinn undir það
að stundum gerist ekkert á deildinni. Þessum degi má alls ekki sleppa fyrir
aðgerð, því hann fyllir mann fullkomnu vonleysi og örvinglan, þannig að
maður verður miklu meðfærilegri fyrir vikið meðan á legunni stendur.
Jæja, þá er það aðgerðardagurinn. Stóri dagurinn. Ég fékk piparmintu eða
annað líkt undir tunguna og sagt að vera rólegum, það væri verið að brýna
hníf ana og þræða nálarnar. Svona upplýsingar eru afar uppbyggjandi fyrir
einstakling sem verður óttasleginn ef hann heyrir minnst á sláturgerð, hvað þá
uppskurð.
Svæfingalæknirinn byrjaði á að trilla mér inn í aflokað herbergi og fór að
segja mér að ég yrði ekki svæfður, heldur mænudeyfður og bætti við ,,að það
gengi oftast bara vel“. Við þessi huggunarorð hresstist ég allur eða hitt þó
heldur. Læknirinn var með grímu fyrir andlitinu þannig að ég gat ekki séð
hvort hann glotti eða ekki. Það var þarna sem ég fattaði að grímurnar hafa
ekkert með sóttvarnir að gera heldur eru þær einungis til að fela meinfýsið
glottið á starfsfólkinu þegar sjúklingarnir eru að bresta undan álaginu og
opinbera vesöld sína. Enda nota dýralæknar ekki svona grímur.
Jæja, inn kom hjúkrunarkona sem sagðist ætla að stinga mig í handarbakið