Húnavaka - 01.05.2013, Blaðsíða 111
H Ú N A V A K A 109
skólans. Ennfremur bendi ég á að það væri hægt að fylla mikið stærra rými
með skólaminjum Kvennaskólans en það sem við höfum yfir að ráða nú, því
mikið er til af kennslutækjum, gögnum og allskonar munum.
Þetta verkefni, þ.e. uppsetning Minjastofu, hefur verið unnið að miklu leyti
í sjálfboðavinnu og margir hafa lagt hönd á plóg .
Ég vil hér og nú þakka öllum sem hafa lagt okkur lið með ljúfu geði á allan
mögulegan hátt. Það er of langt mál að telja
alla upp sem vert hefði verið og hætt við að
einhverjir gleymist. En mig langar þó til að færa
hönnuði sýningarinnar, Jóni Þórissyni, sérstakar
þakkir fyrir góða samvinnu og vel unnið verk.
Svo langar mig til að þakka Jóni Bjarnasyni
alþingismanni fyrir hjálpina þegar við, sem
kölluðum okkur áhugahópinn, lögðum af stað í
þá vegferð að hafa áhrif á að húsið fengi
andlitslyftingu. Hann hreyfði málinu á þingi og
greiddi okkur leið til Húsafriðunarnefndar og
annarra sem við þurftum að hafa samband við.
Nokkrar gjafir hafa borist nýlega til Minjastofunnar: Kolbrún Zophonías-
dóttir gaf Kvennafræðarann eftir Elínu Briem, sem er nú í sýningarborði.
Engilráð Sigurðardóttir fól okkur forláta ljósakrónu til varðveislu í Elínarstofu,
ættargrip úr fjölskyldu hennar. Listakonan Þórdís Baldursdóttir mótaði
postulínsnúmer á allar hurðir á efri hæðum hússins, eins og voru hér áður, í
stað þeirra sem glatast höfðu. Þórdís hefur gefið vinnu sína og efni. Nokkrir
höfðu áður komið með muni og myndir sem nýttust við uppsetningu
sýningarinnar.
Ég færi gefendum kærar þakkir.
Að endingu óska ég Þekkingarsetrinu og starfsmönnum þess heilla í starfi
sem ég vona sannarlega að eigi eftir að blómstra og skila góðum árangri. Á
sama hátt óska ég öðrum sem starfa í húsinu, Textílsetri, Vatnsdælu á refli,
Blönduskóla og Háskólasetri, þess að störfin megi eflast og síðast en ekki síst
að allir geti komið sér vel saman hér í húsinu, hér ríkir góður andi og megi allir
bera gæfu til að ganga vel og virðulega um þetta fallega gamla hús svo sómi sé
að.
Iðunn Vignisdóttir sagnfræðingur
Kvennaskóli Húnvetninga var stofnaður á Undirfelli í Vatnsdal árið 1879 og
var hann fjórði kvennaskólinn sem stofnaður var á Íslandi. Fyrstur var
Kvennaskólinn í Reykjavík sem stofnaður var árið 1874. Í kjölfarið komu
Kvennaskólinn á Laugalandi í Eyjafirði og Kvennaskóli Skagfirðinga sem
báðir voru stofnaðir árið 1877.
Forgöngumaður að stofnun skólans var Björn Sigfússon bóndi á Kornsá og
síðar alþingismaður. Hann hafði verið ytra við smíðanám veturinn 1873-74.
Aðalbjörg Ingvarsdóttir.