Húnavaka - 01.05.2013, Blaðsíða 115
H Ú N A V A K A 113
því allt sem hér hefur verið gert á undanförnum árum hnígur í þá átt, að koma
hér á fót starfsemi sem nýtir sér sögu Kvennaskólans og þær hugsjónir sem
skólinn hefur haft að leiðarljósi í heila öld.
Nú bætist þekkingarsetrið við sem er angi af sama meiði. Þessi stofnun, þar
með talið Heimilisiðnaðarsafnið, gefur staðnum styrk og er í raun einn aðal
máttarstólpi Blönduóss í umhverfislegu og menningarlegu tilliti.
Annar máttarstólpi staðarins á sama sviði, sem vert er að minnast á, er
gamli bæjarhlutinn innan Blöndu. Hann er þarna fullur af sögum og
merkilegum húsum og bíður þess að geta stuðlað að endurreisn Blönduóss.
Í viðtali, sem ég hlustaði á fyrir skömmu, við Ágúst Einarsson fyrrverandi
alþingismann, var rætt um menningarhagfræði og hversu menningin væri að
verða umfangsmikil atvinnugrein, sem fjölgar atvinnutækifærum og skilar fleiri
og fleiri aurum í þjóðarbúið. Þar var talað um að 21. öldin yrði öld hinna
skapandi atvinnugreina.
Menningartengd ferðaþjónusta var þar nefnd sem einn þáttur. Þá var talað
um blöndu af menningu og náttúrutengdri ferðamennsku og kvikmyndageirann
sem góða fjárfestingu, sem skilaði miklum verðmætum til samfélagsins.
Mér varð hugsað til Blönduóss, sem hefur á að skipa tveimur eða þremur
undir stöðuþáttum, sem þarna var minnst á og bíða eftir að verða nýttir -
Kvennaskólatorfunnar, gamla bæjarins og svo náttúrunnar.
Ef menn trúa á þessa kenningu og hafa vilja til að vinna að framgangi
henn ar er von til þess, að hana megi efla verulega strax á næstu árum á
Blöndu ósi. Hér skulu nefnd lítil en mikilvæg skref sem styrkja. Hvað Kvenna-
skólann áhrærir, er það bygging nýs inngangs í skólahúsið, sem auðveldar
fjölþættari notkun á húsinu og veitir gott aðgengi fyrir fatlaða að mikilvægum
hlutum hússins. Hvað gamla bænum viðkemur koma gamlar heillegar
götumyndir gamla bæjarhlutans upp í hugann. Gæta þarf vel að því að
skemma þær ekki svo þær haldi gildi sínu. Yfirleitt þarf að umgangast gamla
bæjarhlutann af varúð og virðingu, því hann er einstakt svæði til skoðunar og
myndatöku, sem ekki er til annars staðar á landinu. Hann mun í framtíðinni
hafa mikið gildi fyrir menningar- og sögubæinn Blönduós. Vel þarf að gæta
samspils náttúru og byggðar á þessum stað. Úr náttúrunni er einnig margt
hægt að lesa og fræðast um þarna á bökkum Blöndu.
Á þessu aldarafmæli Kvennaskólans á Blönduósi á ég þá ósk heitasta að
ykkur auðnist að nýta þessa merku stofna, sem ég hef hér drepið á, til þess að
styrkja Blönduós í sögulegu og menningarlegu tilliti. Þar eigið þið einstakan,
gamlan og góðan efnivið. Góðar stundir.
❄❄❄