Húnavaka - 01.05.2013, Blaðsíða 106
H Ú N A V A K A 104
ég beðinn að tala við hann. Þá vandaðist nú málið því ég hafði á skólaárum
mínum neitað að læra mál kúgara okkar í gegnum aldirnar, (einokunartímabilið
og landsleikurinn 14:2). Ég taldi þá, að heimskulegt væri að láta unglinga læra
þetta mál og hef ekki skipt um skoðun. Ég sagði hinsvegar að ég gæti talað við
Danann ef ég fengi 2 til 3 bjóra því þá er ég yfirleitt altalandi á flest tungumál.
Því var umsvifalaust neitað.
Ég fór því að tala við drenginn á þeirri dönsku sem ég var með tiltæka og
reyndi að lýsa hvernig Júlíus hefði sagað mig sundur með viðeigandi
leiktilburðum og dró hvergi af. Sá danski horfði á mig góða stund, stóð síðan
upp fór að skápnum sínum og byrjaði að klæða sig án þess að segja orð. Hann
bakkaði út úr herberginu lokaði hurðinni á eftir sér, gerði rifu og gægðist á mig,
og lokaði svo aftur. Síðan heyrði ég hann tala hátt við hjúkrunarfræðinginn
frammi á gangi þar sem sá danski minntist oft á orðið ,,sindsyg“ sem ég veit
ekkert hvað þýðir. Hann kom aldrei aftur inn í stofuna sá danski,
Seinna þennan dag gerðust stóru mistökin. Þá leyfði ég einum hjúkrunar-
fræðingnum, Júlíu, að lesa þennan pistil hér, sem ég var að skrá niður jafn-
óðum á tölvuna. Því hefði ég betur sleppt. Stuttu síðar kom Anna Lilja deildar-
stjóri, sem reyndar er systurdóttir mín, og sagði að ég hefði ekkert hér að gera
lengur.
„Já, en átti ég ekki að vera 5 daga í viðbót?“ andæfði ég vesældarlega.
„Álit deildarinnar er dýrmætara en löppin á þér“ svaraði hún og virtist
meina hvert einasta orð.
„En þetta er bara létt grín hjá mér“ nöldraði ég til baka.
„Það er aldrei létt grín í okkar ætt, Reynir, láttu mig þekkja það.“
Og nú stefnir hún að veggnum og mér sýnist hún ætla að kippa tölvunni úr
samb...........................
Nú er ég búinn að kveikja á tölvunni heima hjá mér og vil ljúka þessum
skrifum um veruna þarna uppfrá.
Ég þurfti að koma nokkrum sinnum í eftirlit á Slysadeildina sem var svosem
í lagi en mér finnst þó lélegt hjá forráðamönnum deildarinnar að hafa komið
með Dönsku blöðin og Fálkann sem voru á slysadeildinni í gamla húsinu þegar
Guðmundur Karl var yfirlæknir. Maður þarf að skrá sig við komuna og láta
vita hvaða lækni maður á að hitta en yfirleitt er akkúrat sá læknir sá eini sem
ekki er við og þá er bara að bíða. Í fyrstu endurkomu minni var biðstofan full
að fólki í mismunandi ástandi og voru allir með mjög kvalafulla tilburði og
voru greinilega að höfða til móttökukvennanna um að fá fyrr þjónustu. Þar
sem ég þekkti þá sem þarna var, Þórunni skólasystur mína, þá vissi ég að það
þýddi ekkert. Ég hékk semsagt á hækjunum fyrir framan glerið og gerði henni
grein fyrir mínum málum og hún renndi einhverjum pappírum í tölvuna og
skip aði mér að kvitta. Það gat ég auðvitað ekki þar sem ég þurfti að halda mér
uppi á hækjunum. Ég sagði henni að ég gæti ekki skrifað þannig að nokkur
skildi það svona á mig kominn. „Það er þá enginn breyting á frá því við vorum
í skóla“ sagði hún og hló. Þá litu allir aumingjarnir í biðstofunni upp því þegar
Þórunn hlær er tekið eftir því. Ég vildi nú reyna að launa henni það að gera