Lögmannablaðið - 01.12.2010, Blaðsíða 27

Lögmannablaðið - 01.12.2010, Blaðsíða 27
lögMannaBlaðið tBl 04/10 27 Á léttUM nótUM af Merði lögmanni Mörður lögmaður hefur fylgst með stjórnmálum frá barnæsku. Hann man tímana tvenna á þeim vettvangi og hefur í gegnum tíðina skráð hjá sér ýmsar athugasemdir um menn og málefni. Merði finnst hann að þessu leyti hafa verið fyrirrennari þeirra sem nú eru kallaðir bloggarar en ólíkt þeim ætlar hann að geyma sér það til betri tíma að birta hugleiðingar sínar. Í stjórnmálum snýst jú allt um réttar tímasetningar. Þrátt fyrir djúpstæðan áhuga á lýðræðinu hefur Mörður aldrei gefið kost á sér í eitt eða neitt. Þótt margir komi jafnan að máli við Mörð fyrir kosningar og prófkjör þá hefur aldrei neinn haft orði á því að hann ætti að bjóða sig fram. Af þessum sökum hefur Mörður alltaf haft hálfgerðan ímigust á stjórnmálaflokkunum og starfi þeirra. Mörður rekst ekki vel í flokki, hann er sjálfs síns herra og hvorki þræll né fangi þeirrar skoðanakúgunar sem viðgengist hefur í fjórflokknum áratugum saman. Síðastliðið sumar kviknaði grár pólitískur fiðringur innra með Merði. Þegar ákveðið var að boða til kosninga á svokallað stjórnlagaþing fannst Merði sem tímarnir hefðu ákallað sig, persónukjör og eitt kjördæmi fyrir landið allt – á slíkum vettvangi gæti hann fótað sig og blómstrað í sinni eigin pólitík, óháður viðbjóðslegum klækjum og óheiðarleika hins fúna flokkakerfis. Undirbúningur að framboði Marðar hófst síðla sumars og allt var til reiðu þegar kom fram í september. Framboð sitt hugðist Mörður tilkynna með áhrifameiri hætti en margir kynnu að búast við. Hann yrði að kynna það á sínum eigin heimavelli, fyrir sínu fólki. Hafði Mörður því ákveðið að framboðið yrði kynnt með sérstökum viðhafnarpistli í Lögmannablaðinu, þar sem Mörður hefur átt sinn fasta sess árum saman. Það var því mikil eftirvænting í brjósti Marðar þegar hann reif plastið utan af septembertölublaði Lögmannablaðsins, þar sem framboðsgreinin og fínu myndirnar sem hann hafði látið taka af sér í sérstökum þar til gerðum klefa í Kringlunni biðu þess á besta stað í blaðinu að hann og aðrir lesendur fengju að líta þær augum. Eftir að hafa flett blaðinu fram og til baka í sífellt vaxandi örvæntingu, rann upp fyrir Merði að pistillinn var ekki í Lögmannablaðinu! Örvæntingin breyttist í undrun, svo sár vonbrigði og að lokum í reiði. Hver í ósköpunum hafði tekið sér það vald að fótum troða rétt hans til birtingar á framboðsgreininni í Lögmannablaðinu?! Skjálfandi af bræði snéri hann skífusímanum: 5 ... 6 ... 8 ... 5 ... 6 ... 2 ... 0. Það hringdi lengi en svo var svarað. Mörður treystir sér ekki til endurtaka hér þau orð sem hann lét falla í þessu símtali. Þær skýringar sem Mörður fékk hjá Lögmannafélaginu á því svívirðilega ofbeldi sem hann hafði verið beittur af hálfu ritstjórn Lögmannablaðsins voru ekki upp á marga fiska: Að ritstjórn blaðsins hefði ekki viljað birta pistilinn út frá jafnræðissjónarmiðum, þar sem fleiri lögmenn yrðu í framboði til stjórnlagaþings. Merði féllust hendur. Ef hann gat ekki vænst stuðnings hjá sínu eigin félagi, sínu eigin málgagni, sínu eigin fólki, hvaða tilgangi þjónaði það þá að bjóða sig fram? Lagði hann öll áform um framboð á hilluna þennan sama dag. Hann fór með blöðrurnar, nælurnar, dreifimiðana, veggspjöldin og annað sem hann hafði útbúið allt saman á haugana. Og minntist ekki á framboðið við nokkurn mann. Það eina sem gladdi Mörð í tengslum við stjórnlagaþingið var háðuleg útreið félaga hans úr Lögmannafélaginu í kjörinu. Eiginlega var Mörður feginn svona eftirá að hafa verið útskúfaður með þeim hætti sem gert var af hálfu ritstjórnar Lögmannablaðsins og ákvað hann að erfa ekki ósómann.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.