Vísbending


Vísbending - 21.12.2015, Blaðsíða 35

Vísbending - 21.12.2015, Blaðsíða 35
35 en faðirinn var í allt öðrum heimi, að kjafta um laust og fast. Þegar andstæðingurinn loks lék þá brá honum yfirleitt við, sagði: „Hvað helvíti á að þjarma að manni!“ eða: „Nú á aldeilis að fara illa með mann!“ en færði strax einn af sínum mönnum eldsnöggt og óhikað, og hélt áfram að kjafta við fólk í kring, á milli smókanna. Svo þegar nokkuð var liðið á skákina og hann búinn að segja nokkrum sinnum eitthvað í þá veru að hann ætti eiginlega enga von á móti þeirri stórsókn sem hann þyrfti að sæta, þá sneri hann sér skyndilega allur að skákinni, lék eldsnöggt; skildi mann eftir í uppnámi eða fórnaði kannski hrók, tvo þrjá leiki í viðbót eftir svar andstæðinganna, lék svo síðasta leiknum með sveiflu og banki: „Hana, mát!“ Þetta gerðist alltaf. Ekki endilega mát, hann náði kannski að gaffla drottninguna þannig að skákin var gjörunnin, og aldrei brást að hann færi með sigur af hólmi. Stundum tókst að nudda honum í aðra skák, heldur tregum, en jafnan fór allt á sama veg. Og eftir skákina var hann alltaf hrósandi og uppörvandi við hinn fallna andstæðingi: „Ja, maður var nú farinn að svitna þarna um tíma! Ég var orðinn næstum úrkula vonar um að eiga mér viðreisnar von!“ Þessu fylgdist drengurinn alltaf með. Og af ólitlu stolti. Einu sinni á heimleið spurði hann föðurinn: „Geta þeir ekkert þessir frændur sem þú varst að tefla við?“ „Jújú,“ sagði faðirinn. „Þeir eru seigir. Lúnknir menn innanum, eins og hann Hrólfur, hann er nú í stjórn Taflfélagsins! Það eru engir aumingjar sem komast svo hátt!“ Hrólfur var móðurbróðir drengsins, framkvæmdastjóri í stóru fyrirtæki, og sá sem oft hafði sigrað alla hina þegar faðirinn fékkst loks til að setjast að tafli í fjölskylduboðum. Kannski var það af tillitssemi við móðurina, systur Hrólfs, sem líka sat í bílnum á heimleiðinni, sem faðirinn vildi ekki fallast á að hann væri einhver aumingi í skák, því að síðar sama dag þegar þeir drengurinn voru einir sagði faðirinn: „Þeir náttúrlega geta ekki mikið, Hrólfur og þessir kallar, á við suma sem ég tefli mest við niðri á stöð.“ En bílastöðin sendi gjarnan lið sem var mjög sigursælt í firmakeppnir, faðirinn var þá gjarnan á þriðja eða fjórða borði, og hafði unnið marga bikara og medalíur. Á fyrsta borði bílastöðvarinnar í firmakeppnum var alltaf Toni, vinur föðurins; hann tefldi líka á Íslandsmótum með stórmeisturum og alþjóðlegum meisturum og var yfirleitt svona um miðja töflu. Medalíur og bikarar sem faðirinn hafði fengið var ekki haft til sýnis á heimilinu, á kommóðu eða arinhillu (engri slíkri reyndar til að dreifa) en hann geymdi það samt umhyggjusamlega á hillu inni í svefnherbergisskáp, og þetta skoðaði drengurinn stundum þegar aðrir sáu ekki til; medalíur í boxum, viðurkenningarskjöl upprúlluð í teygju, og þar voru líka skáksett og skákklukkur; sumt af því hafði hann fengið sem verðlaun eða heiðursgjöf. Það var eitt skákborð á neðstu bókahillu inni í stofu, spjald brotið saman í miðju, ásamt hversdagslegri klukku og taflmannasetti í ljósbrúnum trékassa, það var stundum dregið fram þegar vinir komu í heimsókn, og á það hafði hann kennt drengnum mannganginn. En svo ekkert meira en það, að kunna ekkert nema mannganginn er að kunna ekki neitt, og drengurinn átti síðar eftir að fatta að faðir hans var enginn kennari, hafði það ekki í sér, hafði enga eirð í sér til að útskýra fyrir græningjum það sem hann sjálfur kunni út í hörgul, skorti alla þolinmæði í þannig lagað, svo þeir tefldu eiginlega aldrei feðgarnir, það var eins og að skjóta þúfutittling með fallbyssu. Þegar drengurinn var orðinn tólf ára rakst hann á byrjendakennslubók eftir Friðrik Ólafsson stórmeistara á bókasafninu, og þá fór að verða einhver örlítil glóra í hans tafl- mennsku; hann lærði eitthvað lágmark í byrjunum, hvernig ætti að byggja upp stöðu og verða ekki heimaskítsmát, þeir reyndu þá aftur með sér feðgarnir, og faðirinn hrósaði mikið framförum sonarins, en getumunurinn var samt allt of mikill til að þetta væri skemmtilegt; þótt faðirinn væri að gefa syninum hrók, eða jafnvel drottningu í forgjöf, þá brást aldrei að hann sveið samt út vinning, svo þeir hættu þessu fljótt aftur. Faðirinn, þótt hann væri jafnan hrókur alls fagnaðar í námunda við skáktafl, átti það líka til að verða ansi þungur á bárunni, finnast allt ómögulegt og ekki taka því að gera neitt, tala helst ekki við neinn, vilja bara reykja sígarettur og góna út í bláinn, eða niður í gólfið, og

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.