Vísbending - 21.12.2015, Síða 36
36
stundum jafnvel súpa úr flösku og hvarf þá iðulega dögum saman,
og þetta með öðru var auðvitað ástæða þess að „honum varð ekkert
uppifast“ – hann kom sér út úr húsi hér og þar, flosnaði upp úr vinnu
og samstarfi. Á fyrstu táningsárum sonarins ágerðist þetta heldur, svo
að á endanum var faðirinn rekinn til að leita sér hjálpar og var uppúr
því löngum stundum inni á stofnunum. Það var ekki auðvelt fyrir
unglingsdreng að hafa föður sinn í slíku óstandi, hann fór sjálfur að
reyna að sniðganga samneyti við fólk sem var líklegt til að spyrja um
heimilishagi, hvað væri að frétta, lagðist heldur í ákafan bóklestur
eða lét sér leiðast, og að sumu leyti kom sér vel að fjölskyldan þurfti
einmitt þá að losa sig við íbúðina þar sem þau höfðu lengi búið
og finna sér aðra, í öðru hverfi, svo það var á sinn hátt sjálfgert að
drengurinn tapaði tengslum við gömlu vinina úr hverfinu heima.
Hann fór í nýjan skóla þar sem hann þekkti engan, og engan þekkti
hann heldur í nýja hverfinu. Nema það var einn drengur sem var líka
nýfluttur í sama hverfið, og meira að segja í sömu blokkina, og var
nýbyrjaður í þessum sama hverfisskóla, og var líka ókunnugur öllum
á svæðinu. Það kom einhvernveginn af sjálfu sér að þeir tveir fóru
að halda hópinn, í skólann á morgnana og svo heim í blokkina eftir
skóla. Og auðvitað fóru þeir að tala saman og reyndust eiga sitthvað
sameiginlegt, höfðu til dæmis lesið sumar sömu bækurnar. Þeir fóru
að detta inn hvor hjá öðrum að lána hinum bók eða fá lánaða, og eitt
sinn fór það svo að þeir settust að tafli heima hjá nýja vininum. Það
reyndist ójafn leikur, nýi vinurinn hafði lært að tefla almennilega,
gengið í skákskóla og teflt við eldri og vitrari menn sem höfðu haft
þolinmæði til að leiðbeina honum. Svo að drengurinn var eins og
alger byrjandi að tefla við þrautþjálfaðan skákmann. En nýi vinurinn
sagði að það væri auðvelt að fara yfir nokkur atriði svo að taflið á
milli þeirra myndi jafnast eitthvað; þeir fóru saman yfir byrjanir, hann
kenndi drengnum að byggja upp varnir, hvernig ætti að fara inn í
miðtafl, hann átti auðvelt með að útskýra svona, átti margar bækur
þar sem farið var yfir urmul frægra skáka helstu meistaranna, svo sem
Tal, Aljekin, Botvinnik og Capablanca, svo tefldu þeir og tefldu hvor
við annan, og drengnum fór hratt fram, skákir þeirra innbyrðis tóku
að koma í jafnvægi út í endataflið, þá tapaði drengurinn oftast því
hann kunni ekki endatafl, hafði aldrei áður komist svo langt á móti
nokkrum manni. En svo lærðist það líka, skákirnar fóru að enda með
jafnteflum, og drengurinn jafnvel að vinna stöku sinnum. Nýi vinurinn
sagðist vera hissa á þessum hröðu framförum, það kom í ljós að hann
sjálfur hafði verið á fyrsta borði í keppni á milli grunnskólanna fyrir lið
skólans sem hann hafði lengst af stundað, og að hans lið hafði unnið
það mót; drengurinn var að læra af sannkölluðum meistara. Ennþá
voru þeir litlir og barnalegir báðir tveir; dálítið skrýtnir svona einfarar,
en höfðu hvor annan og svo skákina sem var alveg að heltaka þá, það
var legið í skákblöðum og bókum, þeir gátu hlegið dátt að frægum
fingurbrjótum og afleikjum, og svo hófst í Reykjavík afar sterkt
alþjóðlegt skákmót, frægir stórmeistarar úr ýmsum löndum voru
komnir: Mikael Tal fyrrum heimsmeistari, Bent Larsen, Gligoric,
Séra Lombardí, samtals átta meistarar úr heimselítunni, og svo fjórir
bestu skákmenn Íslands, meðal annars báðir stórmeistararnir. Og
þeir vinirnir úr blokkinni reyndu helst að vera viðstaddir mótið hvern
einasta dag, horfðu hugfangnir á meistarana við taflið; sumir sátu
grafkyrrir og höfðu ekki augun af borðinu, aðrir virtust eirðarlausir og
gengu um gólf, sumir voru með sálfræðihernað, sátu með sólgleraugu
og pókerandlit, aðrir reyktu í sífellu og blésu reyk á einhvern hátt
fyrirlitlega í átt að andstæðingnum, allt var þetta hrein opinberun að sjá
í návígi – heimselítuna að tafli. Og svo voru það hliðarherbergin með
skákskýringunum, þar voru frægir taflmenn við stór veggborð sem
fóru í gegnum skákir meistaranna, nú var staðan rafmögnuð á milli
Friðriks sem var með hvítt á móti sjálfum Tal, fyrrum heimsmeistara,
töframanninum frá Ríga, sem stýrði svörtu mönnunum; hvítur
virtist vera með frumkvæðið en Tal er eins og menn vita algerlega
óútreiknanlegur, eigum við að segja að hann fari með riddara hérna
á gé fjóra? Salurinn var fullur af skákmönnum af ýmsum stigum,
drengurinn kannaðist við suma af bílastöð föðurins, menn komu með
tillögur að næsta leik, aðrir gerðu góðlátlegt grín að þeirri tillögu og
sögðu að það væri vísasti vegurinn hjá „svarti“ til að tapa skákinni.
Loks kom leikurinn, Friðrik hafði bara hrókerað, já margir sáu þá að
þeir hefðu gert það sama og hann í stöðunni. Svona liðu dagarnir, þetta
var eilíft gaman. Einn daginn þegar staðan í skák Larsens og Gligoric
var mjög krítísk, menn voru sammála um að næsti leikur gæti skorið
úr um feigð eða frama, þá hvísluðust vinirnir tveir á, þeir höfðu haft
fram að því vit á að þegja í þessu samkunduhúsi, en urðu nú sammála
um hvað væri vænlegast fyrir Larsen að gera í stöðunni, og drengurinn
mannaði sig upp í að segja það upphátt, koma með tillögu að næsta
leik; sumir í salnum svöruðu með efasemdarhljóðum, skákskýrandinn
við veggborðið prófaði samt þann leik, en varð ekki jafn efins og
hinir, hreint alls ekki, og viti menn, Larsen lék svo þessum leik, og
vann á endanum skákina. Menn fóru að líta á drengina með vott af
viðurkenningu í svipnum, stöku menn heilsuðu, einn af bílastöðinni,
hann Toni, spurði drenginn hvort hann væri ekki hann, spurði hvað
væri að frétta af föðurnum, klappaði honum svo á kollinn og sagði
að hann ætti ekki langt að sækja það að kunna skák. Á kvöldin voru
skákskýringar í sjónvarpinu, þær voru algerlega ómissandi, eftir þær
hittust vinirnir og fóru í gegnum hinar allar skákirnar sem höfðu verið
tefldar á mótinu þann daginn, og svo tefldu þeir sjálfir innbyrðis,
tefldu djöfulinn ráðalausan, og það hélt áfram þótt mótinu lyki.
Faðirinn var kominn heim, var svona að búa sig undir að fara aftur út
í lífið, en hafði sig ekki alveg í það, var á einhverju eirðarleysisflandri.
Drengurinn, sem hafði nýlega áskotnast blað með öllum skákunum
úr einvígi Capablanca og Aljekíns, sat við eldhúsborðið og var búinn
að stilla upp krítískri stöðu úr einni þeirra með hversdagstaflsetti
föðurins, er að rýna í skákina þegar hann verður var við að faðirinn
stendur og horfir á.
-Hva, ertu að tefla við sjálfan þig?
-Ja, bara svona eitthvað að skoða.
-Ja, nú þykir mér tíra. Eigum við kannski að taka eina bröndótta?
Og svo voru þeir farnir að stilla upp. –Hef ég nokkuð að gera við
báða hrókana? spurði faðirinn. En drengurinn tók ekki annað í mál en
að þeir myndu byrja með alla mennina á borðinu. Faðirinn vildi þá í
það minnsta leyfa stráknum að hafa hvítt, en hann tók það heldur ekki
í mál, var kominn með hvítt og svart peð í hvorn hnefa, og faðirinn
bankaði en fékk hvítt. Hristi hausinn svo lítið bar á, þetta yrði eins og
að skjóta þúfutittling með fallbyssu, var hann eflaust að hugsa.
Faðirinn lék fram kóngspeðinu og drengurinn svaraði með
C-peðinu, eins og hann ætlaði í Sikileyjarvörn. Faðirinn ætlaði að
standa upp en varð hissa, drengnum heyrðist hann hnussa eitthvað
um hvaða stæla. Faðirinn lék aftur og stóð svo upp til að laga kaffi.
Kveikti sér svo í sígarettu. Þeir skiptust á um upphafsleikina, og
bráðlega var allt orðið gamalkunnugt, drengurinn sat yfir skákinni,
faðirinn var í flestu öðru, að klára uppáhellinguna, finna öskubakka,
raða salt- og piparbaukunum upp á nýtt, kveikja á útvarpinu, gá að
einhverju í blaðinu, svaraði eldsnöggt þegar hann leit á skákina og
sá að strákurinn var búinn að leika, og var farinn að tala um stórsókn
á móti sér, hann vissi ekki hvað hann ætti til bragðs að taka, en hana
samt, prófum þetta! Var í sólskinsskapi. Þar til þeir voru komnir
eitthvað út í miðtaflið og hann átti leik, ætlaði að svara í hvelli, en sá
þá eitthvað á skákborðinu sem honum leist ekki á. Hætti við að leika.
Drap í sígarettunni. Settist. Drengurinn var búinn að stilla upp í árás,
bjóst til að sprengja upp kóngsstöðu föðurins. Og gerði það í næstu
leikjum, þótt sá eldri sæti einbeittur og reyndi að verjast. En staða