Dagblaðið Vísir - DV - 24.10.2012, Blaðsíða 12
n Systur þjást af sjaldgæfum sjúkdómi n Þekkja ekki andlit
12 Erlent 24. október 2012 Miðvikudagur
Obama enn
líklegri
Þrátt fyrir að fylgi við Barack
Obama, forseta Bandaríkjanna, hafi
dalað á síðustu vikum bendir flest
til þess að hann standi uppi sem
sigurvegari í forsetakosningunum
sem fram fara 6. nóvember. Hann
hefur haft forystu í flestum skoð-
anakönnunum frá því að ljóst var að
Mitt Romney yrði forsetaframbjóð-
andi Repúblikanaflokksins.
Samkvæmt kosningavakt New
York Times eru 70 prósenta líkur
á því að Obama verði sigurvegari
kosninganna en blaðið tekur dag-
lega saman upplýsingar um skoð-
anakannanir sem eru gerðar um allt
landið. Það er tölfræðingurinn Nate
Silver sem heldur úti kosningavakt-
inni en hann hefur fylgst með stöð-
unni frá því í byrjun júní. Líkurnar á
sigri Obama hafa oft verið meiri en
mestar urðu líkurnar 87 prósent í
byrjun októbermánaðar.
Enn er ekki komin spá miðað við
kannanir sem gerðar voru eftir síð-
ustu kappræður þeirra Obama og
Romney í bandarísku sjónvarpi þar
sem Obama þótti hafa vinninginn.
Lifði eftir reglum
Biblíunnar í ár
Rithöfundurinn Rachel Held Evans
lifði eins og Biblían kveður á um
að konur eigi að gera í heilt ár. Hún
sleppti klippingu, fór með bænir á
þaki húss síns og svaf í utandyra í
tjaldi á meðan hún hafði tíðablæð-
ingar. Evans skrifar um reynslu
sína í nýrri bók sem heitir A Year
of Biblical Womanhood. Í viðtali í
bandaríska þættinum Today sagð-
ist hún hafa viljað láta reyna á hvort
einhver geti í raun lifað eftir öllum
þeim reglum sem konum eru settar
í Biblíunni. Evans segir að það hafi
ekki verið alslæmt að fylgja reglum
Biblíunnar í einu og öllu og nefn-
ir til að mynda að henni hafi þótt
gaman að elda fyrir fjölskyldu sína
á hátíðisdögum gyðinga. Annað
reyndist flóknara í framkvæmd og
viðurkennir eiginmaður hennar að
sumt hafi honum líka þótt óþægi-
legt. Nefnir hann sem dæmi að það
hafi verið skrýtið að eiginkona hans
til sjö ára hefði allt í einu byrjað að
kalla hann húsbónda.
L
íklega hafa margir lent í því
að mæta einhverjum á förn-
um vegi og finnast þeir eiga að
þekkja viðkomandi en geta ekki
komið því fyrir sig um hvern
ræðir. Fyrir systurnar Donnu Jones
og Victoriu Wardley er þetta daglegt
brauð og hefur verið alla ævi. Þær
hafa „prosopagnosia“, andlitsblindu,
röskun sem lýsir sér þannig að þeim
er ómögulegt að þekkja andlit fólks.
Þær þekkja ekki einu sinni andlit
sinna nánustu; ekki eigin barna né
maka.
Ástandið er það slæmt að systurn-
ar þekkja ekki einu sinni eigin spegil-
myndir – hvað þá hvor aðra.
Þekkir ekki sjálfa sig
„Þegar ég horfi á andlit einhvers sé
ég það með rörsýn. Ég get séð andlit
eða nef, en þegar ég reyni að horfa á
allt andlitið þá gengur það bara ekki,“
segir Victoria í viðtali við Daily Mail.
Donna systir hennar tekur í sama
streng. „Fólk sem ég hef þekkt í mörg
ár kemur upp að mér úti á götu og
heilsar mér en ég hef ekki hugmynd
um hvaða fólk um ræðir fyrr en það
kynnir sig. Ég er ekki einu sinni viss
um hvernig ég lít út og ég gæti held-
ur ekki lýst eiginmanni mínum. Ég
tek eiginlega aldrei myndir því það
er enginn tilgangur með því – ég hef
ekki hugmynd um hver er á myndun-
um,“ segir Donna.
Leit ekki á þetta sem vandamál
Systurnar fengu greiningu hjá lækni
fjölskyldunnar fyrir örfáum árum.
„Satt að segja hélt ég aldrei að það
væri neitt að mér, ég hélt bara að ég
væri ekkert sérlega góð í að muna eft-
ir andlitum fólks,“ segir Victoria, sem
er 32 ára og vinnur sem hundasnyrtir.
„Ég gerði mér bara grein fyrir því fyrir
nokkrum árum þegar ég var að vinna
á kaffihúsi að þetta væri eitthvert
vandamál. Læknirinn minn kom á
hverjum einasta degi á kaffihúsið en
ég þekkti hann aldrei. Á endanum
sagði hann mér að koma á stofuna til
sín svo hann gæti skoðað mig. Hann
komst að því að ég væri með andlits-
blindu. Ég er með greiningu á þessu
en flestir sem eru með þessa röskun
vinna bara úr þessu sjálfir,“ segir hún
en þeim systrum er ómögulegt að
þekkja andlit fólks.
Eftir að Victoria var greind komst
Donna að því að hún ætti við sama
vandamál að stríða. „Þegar Victoria
sagði mér hvað læknirinn hefði sagt
við hana þá rann upp fyrir mér ljós.
Ég hélt alltaf að ég veitti fólki ekki
nógu mikla athygli til að muna eft-
ir því, þannig að á einhvern hátt var
það léttir að vita að eitthvað var að,“
segir Donna.
Erfitt að þekkja ekki dótturina
Þó að vissulega reynist þessi röskun
systrunum oft erfið þá eru þær dug-
legar að sjá það spaugilega við sjúk-
dóminn. „Ég hef lent í því að ganga
upp að manni úti í búð haldandi að
hann væri maki minn, en síðan kom-
ist að því að ég hafi tekið í höndina á
röngum manni,“ segir Donna.
„Ég á erfitt með að þekkja dóttur
mína úr hóp af krökkum. Mér líður
mjög illa yfir því stundum – ég meina,
ég ætti að vita hvernig mitt eigið barn
lítur út – en það reynist mér bara
ómögulegt,“ segir Victoria.
Þær eiga báðar erfitt með að þekkja
sjálfa sig í spegli. Þær hafa lent í fyndn-
um uppákomum tengdum því. „Ég
var einu sinni að vinna á bar og var
að reyna að komast inn í eldhús með
fangið fullt af glösum. Þá stóð kona í
vegi mínum og ég gat ekki fengið hana
til að færa sig. Ég var orðin svo pirruð
að ég byrjaði að öskra á hana. Það tók
mig smá tíma að átta mig á því að ég
var að rífast við eigin spegilmynd,“
segir Victoria og segir það hafa verið
martröð að vinna á barnum. Fólk hafi
stofnað reikning á barnum og svo látið
sig hverfa, því hún mundi ekkert hverj-
ir hefðu stofnað reikningana.
Leituðu að hvor annarri heilt kvöld
Vegna ástandsins fara þær systur
sjaldnast út saman, af ótta við að týna
hvor annarri. „Við gætum aldrei far-
ið saman til útlanda vegna hættu á
að við gætum týnt hvor annarri,“ segir
Victoria.
Við höfum farið saman að versla
og týnt hvor annarri. Auðvitað fann
ég hana hvergi. Ég leitaði og leitaði að
henni en fann hana hvergi. Á endan-
um þurfti ég að láta kalla hana upp.
Fólk hélt örugglega að ég væri að leita
að dóttur minni, ekki fullorðinni systur
minni.“
Það er ekki skárra ástandið þegar
þær systur fara saman út að skemmta
sér. „Við fórum saman tvær út að
skemmta okkur einu sinni. Við eydd-
um nánast öllu kvöldinu í að leita hvor
að hinni. Ég er viss um að við höfum
gengið fram hjá hvor annarri nokkrum
sinnum,“ segir Donna hlæjandi. n
Þekkja ekki
eigið andlit
Viktoría Hermannsdóttir
blaðamaður skrifar viktoria@dv.is
Systurnar
Donna og Victoria
þjást af svonefndri
andlitsblindu.
Þær þekkja ekki
andlit fólks, ekki
einu sinni sinna
nánustu. Þær
þekkja ekki hvor
aðra í sjón.
„Ég tek eiginlega
aldrei myndir
því það er enginn til-
gangur með því – ég
hef ekki hugmynd um
hver er á myndunum.