Gerðir kirkjuþings - 1980, Page 267
259
Tæpum tuttugu árum áður hafði séra Jónas Jónsson ritað grein í Tímarit
um uppeldi og menntamál (1890). Þar segir „Víðast hvar, þar sem börnunum
eru kenndar Biblíusögur, munu þau læra þær eins og þulu, með leiðindum eir.s
og kverið, og verða þeirri stundu fegnust er þau mega losast að fullu við
hvorutveggja.
Ég skal ekki segja hverju það er að kenna, en mér liggur að halda, að
það komi æðimikið af því að það eru dauðir bókstafir kenndir með sofandi
orðum, það er farið utan og sunnan við sannleikann, þroskastig og hjarta
barnsins; það lærir, en finnur ekki hvað það lærir. Það lærir með hug-
anum og næminu, en ekki með hjartanu ..... Það svarar fullum fetum
jafnvel torskildum trúarlærdómum, en ef sp\irt er um eitthvað sem snertir
hjartans líf, samband hins innra og ytra kristilegs lífs, um hjartans líf
í trúnni á Guð, sem á að innræta þeim - þá þegja þau. Þá brestur
skilninginn, því að hjartað er ekki með. -------- Og þar sem aðeins er um
annað að ræða kýs ég þó heldur hjartað en vitið, því að það verður þýð-
ingarmeira fyrir siðferðið og trúarlífið."
Um kennarann og aðferðir hans segir þessi ágæti maður: „Það er mjög
nauðsynlegt að fræðarinn sé ekki óþolimóður, verði ekki hastur né ön-
ugur, kaldur né ónotalegur. Það setur kergju í þau börn, sem nokkurt
þrek hafa en lokar alveg fyrir öll svör hjá þeim einurðarlitlu, já, gerir
það jafnvel að verkum að þau börn, sem kunna reiprennandi heima á rúmi
sínu, kunna ekki orð, þegar til spurningatímans kemur." Einnig varar
hann fræðara við að slá á og gera lítið úr röngum svörum,því að þau séu
betri en engin svör og nota megi þau til að leiða barnið til hins rétta
með leiðsögn og lagni.
Deilan um kristinfræðikennsluna stóð linnulítið fyrstu áratugi
aldarinnar og tóku þátt í henni skólamenn, guðfræðingar og aðrir áhuga-
menn. Athyglisvert er að ekki var deilt um hvort kenna skyldi kristin
fræði og hve mikið, heldur fyrst og fremst um innihald kennslunnar og
kennsluaðferðir.
Árið 1923 var samþykkt á kennaraþingi í Reykjavík ályktun um kennslu
kristinna færða í barnaskólum þess efnis, „að kristinfræði í barnaskóla
eigi að byggjast á úrdrætti á ritum Biblíunnar, stuttu ágripi af sögu
kristinnar kirkju, Passíusálmunum og sálmabók, en þá trúarkennslu sem
tíðkast hefur, (utanbókarlærdóm Helgakvers) beri að fella burt úr skólunum".