Öldrun - 01.11.2004, Blaðsíða 26

Öldrun - 01.11.2004, Blaðsíða 26
26 www.oldrun.net ÖLDRUN – 22. árg. 2. tbl. 2004 þegar hækkar flýtur það yfir. Öðru máli gegnir um önnur einkenni sem geta fylgt sjúkdómnum, í einu lagi kölluð geðræn einkenni og atferlistruflanir (e: behavioral and psychiatric symptoms in dementia = BPSD) og er nánar vikið að þeim síðar. Greining Alzheimers-sjúkdóms Greining sjúkdómsins veltur fyrst og fremst á því að gera sér vel grein fyrir þeim einkennum sem fram koma. Því verður að tala við bæði sjúkling og nánasta aðstandanda hans til að fá sem skýrasta mynd. Þessi viðtöl eru grunnurinn að greiningunni, allt sem á eftir kemur er til að staðfesta eða útiloka það sem virðist vera á ferðinni. Að loknu upphaflegu viðtali þarf að ákveða hvort tilefni sé til að rannsaka ástandið frekar og þá að hve miklu leyti. Þegar grunur leikur á heilabilun eru fjórar rannsóknir algengastar: almenn blóðrann- sókn, taugasálfræðilegt mat, tölvusneiðmynd af heila (TS-mynd) og ísótóparannsókn af heila (SPECT). Blóð- rannsóknir eru gerðar til að skoða hvort efnaskipti eru í lagi, kalkbúskapur líkamans og fleira sem getur skýrt einkennin. Við taugasálfræðilegt mat eru lögð fyrir sjúklinginn margvísleg verkefni sem reyna á hin ýmsu svið vitrænnar getu. Það segir prófanda einnig mikið hvernig verkefnin eru af hendi leyst, hversu hratt, hversu góð einbeitingin er o.s.frv. Veikleiki þessarar aðferðar er að niðurstöðurnar verður að bera saman við meðaltal fyrir aldur og kyn. Ef ekkert er vitað um hvernig einstaklingurinn var áður getur verið erfitt að túlka niðurstöðurnar og því þarf prófandinn að vita eitt- hvað um bakgrunninn. Hversu löng var skólagangan, hver var atvinnan, hafði heilinn orðið fyrir áföllum (slys, veikindi)? Allt þetta hjálpar mikið við að túlka niður- stöður. Innra samræmi í lausn verkefna skiptir máli þ.e. hvort sjúklingurinn leysir sum verkefni vel af hendi en önnur miklu lakar því oftast er samræmið nokkuð gott þegar heilastarfsemin er í lagi. Taugasálfræðingur túlkar að lokum niðurstöðurnar og eins og gefur að skilja er hann misjafnlega viss í sinni sök og verður það að koma fram í svari hans. Ef taugasálfræðilegt mat gefur skýra vísbendingu um Alzheimers-sjúkdóm er afar líklegt að það sé raunin. Tölvusneiðmyndin sýnir í stórum dráttum hvernig heilinn lítur út en SPECT hvernig hann starfar, þ.e. hvort einhver svæði eru dauf- ari en önnur. Þessar myndir eru skoðaðar af röntgen- lækni og gefur hann lækni sjúklingsins síðan skriflegt svar með túlkun sinni. Tölvusneiðmyndin er fyrst og fremst tekin til að sjá hugsanlegar aðrar orsakir en Alzheimers-sjúkdóm svo sem blóðtappa í heila, blæð- ingu eða æxli. Í Alzheimers-sjúkdómi sést oft nokkur rýrnun í heilanum en það hjálpar lítið því vökvainnihald heilans minnkar með aldrinum og hjá flestum má sjá einhverja rýrnun þegar komið er fram yfir sjötugt. Ísót- ópaskannið getur verið sértækara. Ef í ljós koma dauf- ari svæði í báðum hvirfillöppunum er fátt annað en Alzheimers-sjúkdómur sem getur útskýrt það. Það er hins vegar aðeins þriðjungur sjúklinganna sem er með þetta sérstaka munstur. Í öðrum tilvikum eru daufari svæðin ógreinilegri eða dreifing þeirra önnur eða þá að rannsóknin er alveg eðlileg, en það er algengt á byrjun- arstigi sjúkdómsins. Reynsla röntgenlæknis við úrlestur skiptir hér miklu máli og því eru þeir aðeins fáir sem hafa lagt það fyrir sig. Aðrar orsakir heilabilunar eru fjölmargar en þeirra algengastar eru æðavitglöp (oftast einn eða fleiri blóð- tappar í heila), Lewy-sjúkdómur sem er skyldur Parkin- sons-veiki og framheilabilun, en ekki verður farið nánar út í þessa sjúkdóma hér. Alzheimers-sjúkdómi er samkvæmt Alþjóða sjúk- dómaflokkuninni (ICD-10) skipt í tvennt eftir aldri sjúk- lings, snemmbær glöp (reskiglöp) eða elliglöp. Farið er eftir því hvenær einkenni urðu fyrst ljós, fyrir eða eftir 65 ára aldur. Þessi skipting hefur litla praktíska þýðingu, en þó má segja að því yngri sem sjúklingurinn er því meiri líkur eru á því að mál- og verkstol séu ríkj- andi einkenni og minnistap er því alls ekki alltaf það ein- kenni sem rekur sjúkling til læknis. Væg vitræn skerðing (e: mild memory disturbance; mild cognitive impairment). Margir eiga erfitt með að muna rétt og verða áhyggjufullir yfir því að þeir séu komnir með alvarlegan sjúkdóm. Í þeim tilvikum er rétt að athuga þrennt. Hvort minnið sé lakara við streitu, sem getur verið full- komlega eðlilegt. Hvort það fari versnandi þegar til lengri tíma sé litið og að síðustu, á hvaða aldri viðkom- andi er. Lítum nánar á þetta: Menn eru misjafnlega minnugir af náttúrunnar hendi og það er líka ofur eðli- legt að lítilsháttar gleymska geri vart við sig á efri árum. Það sem ber þó að taka alvarlega er þegar minnið fer óvéfengjanlega versnandi og minnistruflanir valda erf- iðleikum í daglegu lífi. Vitað er að þeir sem greinast með Alzheimers-sjúkdóm hafa fundið fyrir þverrandi minni í alllangan tíma. Það kemur því ekki á óvart að þeir sem hafa staðfest skert minni, þó ekki það mikið að valdi heilabilun, eru í töluvert meiri áhættu á að þróa Alzheimers-sjúkdóm síðar. Ein þekktasta rannsóknin á þessari þróun er hin svokallaða „Nunnurannsókn“. Þá voru skoðaðar ritgerðir aldraðra nunna, skrifaðar þegar þær voru að sækja um inngöngu í regluna fyrir u.þ.b. hálfri öld. Í ljós kom að þær nunnur sem fengu Alzheim- ers-sjúkdóm höfðu lakara orðfæri tvítugar en þær sem ekki fengu sjúkdóminn. Þegar öflugri meðferð verður komin við Alzheimers-sjúkdómi en nú er möguleg, verður mikilvægt að greina forstig sem væga vitræna skerðingu sem bezt. Geðsjúkdómar Þunglyndi hjá öldruðum getur líkst mjög Alzheim- ers-sjúkdómi á byrjunarstigi. Afar mikilvægt er að greina þar á milli því að þunglyndi má í flestum tilvikum lækna eða bæta mikið. Aðrar sjaldgæfari geðraskanir koma stundum til álita, einkum þegar fram koma aðsóknarhugmyndir (paranoia) eða aðrar hugraskanir.

x

Öldrun

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Öldrun
https://timarit.is/publication/1137

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.