Són - 01.01.2011, Blaðsíða 9
Helgi Skúli Kjartansson
Þríkvæð lokaorð drótt-
kvæðra braglína
Bragfræði fornskáldanna er auðvitað þaulrannsakað efni, og þá ekki síst bragfræði
hins dróttkvæða háttar.1 Smámuni vantar þó á að fræðimenn skýri þar allt einum
rómi eða að skýringar þeirra nái vandræðalaust yfir öll dæmi sem trúverðug mega
þykja. Því má gera sér vonir um að smákönnun á atriðum, sem ekki ber hátt í
aðalrannsóknunum, geti velt upp nokkru nýju, hvort sem það er ný vissa eða vafi.
Hér verður þess freistað að gera slíka athugun á þríkvæðum orðum sem standa
í lok dróttkvæðrar línu, og þá einkum hugað að atkvæðalengd slíkra orða og
hvernig hún tengist öðrum bragreglum um þá hluti, einkum svonefndu lögmáli
Craigies.
Dróttkvæðri línu hentar ekki að skipta í bragliði, eins og gert er við
bundinn kveðskap síðari alda, heldur er henni skipt í sex „stöður“
(bragstöður) sem hver um sig er að jafnaði skipuð einu atkvæði, stund -
um þó tveimur eftir vissum reglum.2 Gerð línunnar er býsna breytileg
en fjölbreytnin er langmest í fyrri hluta hennar. Hér verður einungis
hirt um seinni stöðurnar þrjár, en þar koma færri afbrigði til greina,
sérstaklega í þeim síðustu tveimur.
1 Í þessari grein verður einkum stuðst við tvö yfirlit: Hans Kuhn, Das Dróttkvætt,
Heidel berg (Carl Winter) 1983, og Kari Ellen Gade, The Structure of Old Norse Drótt -
kvœtt Poetry, Ithaca (Cornell Univ. Press) 1995. Auk þess er tekið mið af nýjustu
greiningu háttarins: Klaus Johan Myrvoll, SamstÄfur seinar eða skjótar. Ein etterrøknad
av trykk- og kvantitetstilhøve i skaldeversemålet dróttkvætt (meistararitgerð frá Oslóar -
háskóla), Osló (Institutt for lingvistiske og nordiske studier, Universitetet i Oslo)
2009 (rafræn útgáfa: http://www.duo.uio.no/publ/ILN/2009/92372/samstofur.pdf).
Þessara rita verður vísað til hér á eftir sem „Kuhn“, „Gade“ og „Myrvoll“. Þau eru
að því leyti hentug til samanburðar að þar er reynt að sundurgreina sem flest afbrigði
drótt kvæðra braglína, hvort sem smáatriðin í greiningu eru endilega réttari hjá þess -
um höfundum en öðrum.
2 Hve langt verður gengið í því efni hef ég fjallað um í greininni „No royal road. The
extremes of dróttkvœtt lines in Snorri’s Háttatal“, Versatility in Versification. Multidisciplinary
Approaches to Metrics (ritstj. T. K. Dewey og Frog – Berkeley Insights in Linguistics
and Semiotics 74), New York (Peter Lang) 2009, bls. 247–257, þetta bls. 252–256.