Són - 01.01.2011, Page 20
20 HELGI SKÚLI KJARTANSSON
Hér munar auðvitað um nafnmyndir eins og Á-leifi sem fyrr er
getið og kannski lenda því fremur í þessari stöðu sem fyrri nafnliðurinn
er stuttstofna. Sama má segja um fleiri: Ög-mundar – Sig-valda –
Dan-mörku40 – Sig-túnum – Her-mundi – Mið-garði – Sví-þjóðu
– Söl-mundi – Im-bólum – Ár-móði – Snæ-grundu. En á móti koma
dæmi með greinilega löngu stofnatkvæði: Brodd-Helga – Þránd-
heimi – Kufl-unga – Breið-skeggi – Orkn-eyja – Erl-ingi – Serk-
landi – Dyfl-innar – Skán-eyju – Rögn-valdi – Gunn-laugi –
Geir-dísar. Hér á víst einnig að telja nafnmyndir eins og Þór-bjarnar
og Þór-leiki.41 Alls byrja þá 29 af 5242 sérnöfnum á atkvæði sem væri
langt óháð því sem á eftir fer. Hin dæmin, „Áleifur“ og félagar, eru í
minnihluta og duga engan veginn til að skýra hið sérkennilega hlutfall
samnafna og sérnafna. Fremur má hugsa sér að sérnöfn séu tíðum
lykil orð í textanum og því gjarna skipað síðast í merkingarheild (vísu -
helming, vísufjórðung). Þá hugmynd þyrfti þó að prófa á fleiri nöfnum
en þeim þríkvæðu og skal þess ekki freistað að sinni.
Hvað þá um önnur orð, lýsingarorðin og samnöfnin? Af fjórtán
lýsingarorðum eru níu stuttstofna: (lit-fagra – fjöl-kostigr – for-
hrausti – tor-fúsa – fé-mildum – á-gæti – hug-stóri – van-búna –
vin-fastan) en af hinum fimm koma fjögur aðeins fyrir í Háttalykli
(dæmin nefnd hér að framan) – hið fimmta er görv-alla. Það er sem
sagt ekki nema undantekning að skáldin noti á þennan hátt þríkvætt
lýsingarorð sem ekki er stuttstofna.
Líkt um samnöfnin. Þau eru iðulega stuttstofna eins og þegar eru
nefnd dæmi um (val-falli – al-þingis). Á fyrra tímabilinu eru þau síður
langstofna, undantekningar aðeins tvær af tíu: mann-dáða og kurf-
aldi,43 og er sá munur alltof mikill til að vera tilviljun. Á seinna
skeiðinu hefur hins vegar eitthvað breyst. Af 20 samnöfnum44 eru tólf
langstofna: hyggjandi – vígstöðva – döglingi (tvisvar) – vígingum –
réttendum – görningum – lyptingu – heiðingi – meinlæti –
40 Slíkt dæmi finnst líka í þeirri einu dróttkvæðu vísu sem þekkt er af rúnaristu:
rógstarkr í Danmörku á Karlevi-rúnasteininum á Gotlandi.
41 Myrvoll (bls. 153) telur að tvímyndir eins og Þór-/Þor- (og Gunn-/Gun- sem kannski
er ekki eins sannfærandi) hafi átt þátt í að opna bragarháttinn fyrir þessum
langstofna nafnliðum og þá einmitt í sérnöfnum.
42 Ekki af 55 því að dæmin „Nerbónar“ (tvisvar) og „Sólundar“ eru lögð til hliðar;
þar veit ég ekkert hvernig skáldin hafa skynjað orðhlutaskilin.
43 Skáldin eru þeir fjandvinirnir Þjóðólfur og Sneglu-Halli (Halli er ekki í úrtaki Myr-
volls), báðir úr skáldahópnum kringum Harald harðráða sem kunnur er að
bragfræðilegri nýjungagirni.
44 Ekki 21 því „drómundi“ er sleppt; óvíst er hvort skáldin hafa skynjað það sem sam-
sett orð.