Són - 01.01.2011, Page 23
23ÞRÍKVÆÐ LOKAORÐ DRÓTTKVÆÐRA BRAGLÍNA
Hver er þá niðurstaðan af þessu öllu?
Þessi grein er athugun á „fjórðu stöðunni“ í braglínu dróttkvæðs
háttar, samanburður á línum þar sem þessi staða er skipuð annars
vegar einkvæðu nafnorði, hins vegar fyrsta atkvæði í þríkvæðu
nafnorði (eða lýsingarorði). En athuganir, sem fyrir liggja í brag -
fræðinni (einkum tengdar svonefndu „lögmáli Craigies“), snúa miklu
fremur að línunum með einkvæðu orði. Hér hefur komið í ljós að hinar
línurnar, þær með þríkvæðu lokaorði, lúta að mestu leyti sömu reglum,
þó með vissum frávikum sem ekki er alltaf einfalt að skýra og eru
greinilega ekki alveg þau sömu á öllum tímum.
Athugun á þríkvæðu orðunum eykur vafa fremur en vissu um
hvernig túlka skuli reglur bragarháttarins. Einkum er það hugmyndin
um loka-tvílið, afmarkaðan af braghvíld, sem torvelt er að samræma
niðurstöðunum, sérstaklega hvað varðar 12. aldar dæmin. Þeirri
hugmynd fylgja raunar vandamál líka þótt aðeins sé horft á einkvæðu
orðin og atkvæðislengd þeirra. Þau virðast hvorki mega vera fyllilega
löng né stutt, en einhvern veginn eru minni hömlur á fullri lengd fyrsta
atkvæðis í þríkvæðu orðunum, og þær hömlur breytast líka til muna
frá 11. öld til hinnar 12. Hvernig á því kann að standa er snúnasta
ráðgátan sem rótast hefur upp í þessari athugun.