Són - 01.01.2011, Page 31
31FÁEIN ORÐ UM RADDGLUFULOKUN . . . .
SvÄlnis vegg
sleit á lopti.
(Skjd. B II:123; Sturla Þórðarson, Hák. 23.)
Hér er einn stuðull, s í SvÄlnis og höfuðstafurinn er s í sleit. Þessi stuðlun
finnst hjá öllum skáldum fyrir 1400 en eftir það lagðist hún af (sjá
síðar).
Það kallast gnýstuðlun þegar stuðlað er með sk, sp og st. Þessir klasar
stuðla aðeins innbyrðis en ekki hver við annan eða við önnur s-pör. Í
fyrra dæminu hér á eftir er stuðlað með sk, í því seinna með st:
skorð, því skiljask verðum,
skjaldsteins, frá Ingjaldi;
Skjd. B I:100; Gísli Súrsson, Lv. 20)
Stólþengils lét stinga
(styrjÄld vas þá byrjuð)
(Skjd. B I:340; Þjóðólfur Arnórsson, Sexst. 6)
Eftir 1400, þegar s-stuðlun var horfin úr kveðskapnum, urðu til nýir
gnýstuðlar, sl og sn. Skáldin stuðla þá sl aðeins á móti sl og sn aðeins á
móti sn. Um þetta má sjá nokkur dæmi:
enn hefur snöru snúna
snögglega þeim til búna
(Hallgrímur Pétursson 1996:88)
Hér eru ljóðstafirnir sn í snöru, snúna og snögglega.
slægða slunginni
sleikti tungu
(Jón Þorláksson 1976:183)
Hér má líta gnýstuðulinn sl í orðunum slægða, slunginni og sleikti. Nánar
verður rætt um þessa yngri gnýstuðla síðar í greininni.
Framstöðuklasinn sm hefur þarna nokkra sérstöðu. Líklegt er að sm
hafi alltaf stuðlað aðeins við sm (Ragnar Ingi Aðalsteinsson 2010:181
o.áfr.).
Sníkjuhljóðsstuðlun er það kallað þegar sl og sn stuðla við st. Þessi
stuðlun byggist á því að á milli s og l annars vegar og s og n hins vegar