Són - 01.01.2011, Page 53
53ÁLFAR Í GÖMLUM KVEÐSKAP
Fuglar margir fylgja þeim af fleina rógum,
villidýr af veiðislóðum,
varga sveit með úlfum nógum.11
Klerka rímur eru gamansamar rímur, líklega frá 15. öld, eftir sögu sem
ekki er til í óbundnu máli.12 Sagt er frá ævintýri Prímas nokkurs sem
er brögðóttur klerkur. Undir lok frásagnarinnar þarf Prímas að verja
borg gegn árás Serkja. Í því skyni blæs hann í lúður og kallar þannig
til liðs við sig ýmsar verur.
Í fyrsta skipti sem Prímas blæs í lúðurinn koma til orrustunnar risar,
tröll og þursar. Í þriðja sinn koma ýmis villidýr og í fjórða sinn koma
drekar og ormar. En í annað sinn kemur mikill múgur dauðra manna
á skipum utan af hafi. Þar eru álfar og dvergar með í för.
Hermenn spenna hvassan geir,
heima væri betra,
dragast í leikinn dólgar þeir
er dó fyrir hundrað vetra.
Kappar þóttust komnir enn
við kynstr og ógnir sjálfar,
drífa að þeim dauðir menn,
dverga sveit og álfar.13
Hér eru álfar ekki settir í flokk með tröllum heldur með dauðum
mönn um. Fræðimenn hafa löngum gert því skóna að álfar séu upp -
haflega látnir forfeður sem eru tignaðir eftir dauða sinn og kynnu hér
að vera minjar um slíka hugmynd.14
Jarlmanns rímur eru frá því um 1500 og ortar eftir varðveittri
riddara sögu. Eins og í Klerka rímum eru hér ýmsar verur kallaðar
fram með því að blásið er í hljóðfæri, þar á meðal álfar. Eftir því sem
ég kemst næst eru Jarlmanns rímur elsta heimild þar sem orðið ’huldu -
fólk‘ kemur fyrir, í sögunni er talað um ’huldumenn‘.
Blæs þá ræsir býsna hátt
beint í pípu eina,
11 Rímnasafn I:283. Hér er stafsetning samræmd og sumum leiðréttingum Finns sleppt.
12 Björn Karel Þórólfsson 1934:402–404.
13 Rímnasafn II:888. Stafsetning samræmd.
14 Ekki hafa þó allir verið sannfærðir um þetta, sbr. Einar Ól. Sveinsson 1940:152.