Són - 01.01.2011, Blaðsíða 102
102 ÞÓRÐUR HELGASON
þó að finna í því að Örvar-Odds drápu hans er ekki ætlað hlutverk rímna
og rímnaháttum því ekki beitt.
Í þessari grein notar Benedikt tækifærið til að berja á þeim sem
hatast við rímur: „Jeg skal hjer ekki fara fleirum orðum um rímurnar;“
segir hann, „ýmsir menn hafa viljað sýna smekkvísi og mikilmennsku
með því að úthúða þeim niður fyrir allar hellur, ekki af því illa væri
ort, heldur af því það voru „rímur““.71 Benedikt bendir í lokin á að
rímur eigi sér nú góða formælendur, t.d. dr. Jón Þorkelsson og Þorstein
Erlingsson.
Guðmundur Friðjónson fjallar einnig um Grettisljóð Matthíasar og
það vekur athygli að hann vill ekki viðurkenna að þau geti verið ljóð
og leggur til að þau verði kölluð Grettiskvæði, en hann er raunar á
sama máli og ritdómari Fjallkonunnar sem óskaði þess að Matthías hefði
ort Grettisrímur, og þá undir rímnaháttum.72
Grein Guðmundar er merkt töluverðu yfirlæti og Matthíasi var nóg
boðið og svarar fyrir sig. Þar beitir Matthías hugtakinu episk-lýrisk
um viðleitni sína; þ.e.a.s. Grettisljóð eru tilraun til að segja sögu með
ljóðrænu yfirbragði – og hafnar þar með þeirri kenningu Guðmundar
að Grettisljóð séu fremur kvæði en ljóð.73
Hinu er vissulega ekki að leyna að Grettisljóð minna um margt á
rímur. Upphafið er t.d. ekkert annað en mansöngur:74
Enn skal byrja aldinn brag,
Íslands stytta vetrardag;
gefi karl og kona hljóð,
kveða vil ég Grettis-ljóð.
Ei skal hafa Eddu-prjál,
orðaleik né bragartál;
mitt skal einfalt mærðar-spil,
meðan nóg er efni til. –
Eftir þessu fer Matthías að mestu. Það vekur óneitanlega athygli að
einn þáttur Grettisljóðanna heitir ríma, þ.e.a.s. 6. kaflinn, „Grettir fellir
berserkina (Ríma)“. Þessi kafli er undir dýrum rímnahætti, en hátt -
71 Benedikt Gröndal (1897:177 ).
72 Guðmundur Friðjónsson (1898:35).
73 Matthías Jochumsson (1898:57).
74 Matthías Jochumsson (1956:599).