Són - 01.01.2011, Page 109
109RÍMNAMÁL
Margir hafa leitt í ljós
ljóð af fornum sögum;
kýs jeg heldur kynna hrós
kappa nú á dögum.
Um aldamótin vöktu Alþingisrímur Guðmundar skólaskálds og
Valdemars Ásmundssonar mikla aðdáun fyrir snilldartök höfunda á
máli og brag auk fyndninnar en í rauninni er þar vart um rímur að
ræða; þar eru ekki sagðar sögur.
Það er augljóst að mönnum gekk illa að skilgreina skáldskapargrein-
ina rímur. Finnur Jónsson gerði grein fyrir þeim með folkepoesie og
Bjarni Thorarensen virðist og hafa verið sama sinnis svo sem sjá má
af orðum hans í bréfi til Bjarna Þorsteinssonar árið 1830 þar sem hann
gerir rímur að umfjöllunarefni. Bjarni skrifar: „Rímur eru Skáldskapar -
tegund útaf fyrir sig, og Skáld sem gétur þóknast Almenníngi, er þó
ad minnsta Kosti gódur í Folkepoesie …“ Bjarni fullyrðir í þessu bréfi
að Sigurður Breiðfjörð „hefdi gétad ordid mikid Skáld“.93 Þetta eru
merkileg orð. Fyrir Bjarna eru rímur sérstök tegund alþýðukveðskapar,
út af fyrir sig, ekki eiginlegur skáldskapur og þeir sem yrkja rímur ekki
eiginleg skáld. Ekki fremur en sálmaskáldin sem hann ritar um svo
árið 1819: „Ný Utgáfa af Sálmabók vorri er nú væntanleg med
Appendixi af Sálmum sem þú af Bodsbréfinu um Yrkíng þeirra sérd
ad ei géta annad en ordid Prosaiskir; hlálegt er ad Hlutadegendur hér
eckért Begreb hafa um Skáldskaparins Veru og Edli og alls ecki hafa
þarí framgengid med Tídinni…“94 Og nú blasir myndin við. Nýr tími
skáldskapar er kominn fram á sjónarsviðið en utan hans standa bæði
rímur og sálmar, tvær greinar ljóðlistar sem nútímann forðast, e.t.v.
vegna þess að engin leið er að brjótast út úr vananum. Þetta veldur
því að Bjarni treystir sér ekki til að kalla Sigurð Breiðfjörð skáld, heldur
„Rimer“, þ.e. rímara „en Skáld gét ég ei kallad hann.“95
Sé litið til hugmynda Benedikts Gröndals Sveinbjarnarsonar, raunar
löngu síðar, er hið sama uppi á teningnum. Rímur eru sérstakar í eðli
sínu – og eiga að vera það. Í formála Göngu-Hrólfs rímu ritar hann um
kenningasmíð í rímum: „Kenningum vil ég halda, og hef ég skýrt þær
aftan við, þær eru bæði í Friðþjófssögu og öllum vorum skáldskap af
þessu tagi. Edda er sá fjársjóður og sá arfur, sem vér aldrei megum
93 Bjarni Thorarensen (1986 II:130).
94 Bjarni Thorarensen (1986 I:157).
95 Bjarni Thorarensen (1986 II:166).