Són - 01.01.2011, Side 156
156 HELGI SKÚLI KJARTANSSON
senn), og eru þeir jafn rétt settir hvort sem fjórði bragliður („sól og“)
greinist sem hákveða, eins og hún yrði á eftir braghvíldinni, eða
lágkveða eins og hún yrði án braghvíldar. Lestur með braghvíld finnst
mér reyndar nærtækari, líklega helst vegna þess að ég get ómögulega
skynjað „sól og“ sem lágkveðu. Jafnvel í línum eins og þessari:
Gróður|magnað | lífsafl||ið | leysist | skjótt
– má vel hugsa sér braghvíld inni í orði: „lífsafl||ið“, þó að hún
samsvari þá auðvitað engri þögn eða hiki í framsögn. Hins vegar
verður að benda á að samsettar línur eru ógjarna stuðlaðar saman tvær
og tvær, algengara að ljóðstafir bindi saman fyrri hluta þeirra og seinni.
Ein lína sálmsins er reyndar því lík:
Hærra’ og hærra stígur á himinból
Hér bjóða ljóðstafirnir heim lestri með braghvíld. Og í næstu línu
virðist braghvíldin beinlínis táknuð með þankastriki í sálmabókinni:
hetja lífsins sterka – hin milda sól.
En nú eiga þessar línur saman sem par. Í þeirri seinni er ljóðstafurinn
greinilega enginn nema h-ið í „hetja“ sem verður þá að vera höfuð -
stafur og kalla á tvo stuðla, ekki þrjá, í línunni á undan.
Hvað er hér á seyði? Er það bara guðsmaðurinn sem laumast til að
ofstuðla í langri línu, og hefur það svosem ýmsan hent? Kannski sérstak-
lega af því að sama orðið, „hærra“, er tvítekið en skáldin leyfa sér oft að
líta framhjá ljóðstöfum sem koma fram við tvítekningu orða.2 Engu að
2 Það gerir Matthías t.d. iðulega, og jafnvel Davíð: „Man ég, man ég tíma tvenna.“ Al-
gengast mun í slíkum dæmum að orð eða bragliður sé endurtekið óbreytt og ótengt,
og hefði Friðrik þá frekar átt að segja: „Hærra, hærra stígur“. Matthías á þó til að líta
framhjá ljóðstöfum í endurtekningu sem bera má saman við „hærra og hærra“:
Hér er skáld með Drottins dýrðarljóð,
djúp – svo djúp sem líf í heilli þjóð,
blíð – svo blíð að heljarhúmið svart,
hvar sem stendur, verður engilbjart.
En hann var líka allt annað en viðkvæmur fyrir aukastuðlum, sbr. úr sama ljóði:
Sjáið skáld er söng um Kristí kvöl.
Kynslóð sr. Friðriks var yfirleitt formfastari í þessu efni. Þó liggja eftir hann ljóð -
línur eins og þessi:
allir þínir englar og öll þín hólpin hjörð
(Sálmabók 1972, bls. 6).