Són - 01.01.2011, Side 163
163FJÓRLIÐIR
Einnig hér á skáldið til að rjúfa hina föstu forskrift með því að auka
við léttum atkvæðum. Einu sinni sem forlið, og þá með því að tvöfalda
hinn reglulega forlið:
hrafnaþing kolsvart í holti
fyrir | haukþing á | bergi
Hins vegar þrisvar með því að bæta atkvæði í fyrsta liðinn, gera þrílið
að fjórlið:
Sofinn er nú | söngurinn | ljúfi
Glaðir skulum | allir að | öllu
Floginn ertu | sæll til | sóla
Í síðasta dæminu er tvíliður („sæll til“) á eftir fjórliðnum, líkt og næsti
liður styttist til mótvægis við lengingu þess fyrsta.
Í þessu kvæði eru 40 línur og aðeins þessar fjórar með frávikum í
bragliðagerð. Þau tilbrigði eru sem sagt síst meiri en í Móðurást. Hún
er hins vegar miklu taktfastara kvæði á þann mælikvarða hve þétt
þríliðirnir fylgja áherslum málsins, auk þess sem rímið undirstrikar hin
háttföstu hendingaskil. Í erfiljóðinu verður hrynjandin hægari og
óræðari, svífandi frekar en hraðstreym, ekki vegna þess að svo víða sé
breytt út af atkvæðafjölda heldur vegna þess hvernig þríliðirnir gefa
kost á aukaáherslu. Oft á mið-atkvæðið: „sól brugðið“, „fannhvíta“, „sól-
landa“, „haukþing á“. En einnig lokaatkvæðið: „hrafnaþing“ – og þó
allra helst í línu sem hér var ekki vitnað til: „og hryggð á þjóð -
brautum“.19
Fáir af háttum Jónasar leyfa þvílíka sveigju í atkvæðafjölda og sá
sem hann tekur eftir Heine og notar sérstaklega í ljóðaflokknum Annes
og eyjar, tólf ljóð með tólf línum hvert. Með reglulegum línum er hátt -
urinn svona:
Tíbrá frá | Tinda|stóli
titrar um | rastir | þrjár.
19 Þessi síðasta lína ber svip af fornum kveðskap, sýnir hrynmynstur sem vel er þekkt
úr dróttkvæðum hætti, og hefur Jónas vafalaust hugsað þetta sem eins konar hryn-
ræna tilvísun til fornskáldanna. Hitt held ég sé aftur á móti tilviljun að fjórliðirnir
þrír hafa allir áhersluatkvæði sem hjá fornskáldunum hefði verið stutt („sof inn“,
„glaðir“, „floginn“) og þess vegna kallað á aukaatkvæði.