Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2008, Blaðsíða 14
12
Tímarit um menntarannsóknir, 5. árgangur 2008
og leitt andlit táknaði mjög leiðinlegt. Á milli
þessara þriggja kosta voru síðan möguleikarnir
frekar skemmtilegt og frekar leiðinlegt (útskýrt
í texta).
Nemendur í 6. og 9. bekk svöruðu
hefðbundnum spurningalistum með blöndu
af spurningum og staðhæfingum sem taka átti
afstöðu til. Í spurningalistunum var spurt um
þætti sem tengdust félagslegum bakgrunni
nemenda, viðhorfum til skólans og námsins og
daglegum högum. Staðhæfingar snertu ýmsa
viðhorfaþætti. Þátttakendur voru beðnir um að
taka afstöðu til þeirra og merkja við 1 ef þeir
voru mjög ósammála, 2 ef þeir voru frekar
ósammála, 3 ef þeir voru aðeins ósammála,
4 ef þeir voru aðeins sammála, 5 ef þeir
voru frekar sammála og 6 ef þeir voru mjög
sammála.
Spurningalistar til foreldra tóku til upp-
lýsinga um heimilisaðstæður og viðhorfa
foreldra til ýmissa atriða í tengslum við
nám og kennslu barna sinna. Í þeim var
blanda spurninga og staðhæfinga eins og í
nemendalistunum í 6. og 9. bekk. Svarkvarði í
staðhæfingum var sá sami og hjá nemendum.
Sami spurningalisti var sendur til allra
foreldra nemenda í öllum bekkjunum en þó
með smávægilegum breytingum á einstaka
spurningu eftir því á hvaða aldri börn þeirra
voru.
Framkvæmd
Haft var samband við alla þátttökuskólana
og gerður við þá samningur um þátttöku í
rannsókninni. Þetta var gert til að stuðla að
sem mestri þátttöku en umsjónarkennarar í
viðkomandi árgöngum voru rannsakendum
innan handar við að senda spurningalista heim
til foreldra, við að afla skriflegra leyfa frá þeim
um þátttöku barna þeirra og að lokum við að
ítreka skil á listum. Foreldrar fengu jafnframt
upplýsingablað um rannsóknina og fram-
kvæmd hennar og þeim var heitið trúnaði.
Rannsakendur fóru í þátttökuskólana og
lögðu spurningalistana fyrir þá nemendur í
3., 6. og 9. bekk sem foreldrar höfðu gefið
leyfi fyrir. Rætt var við nemendur áður en
fyrirlögn fór fram um að þeir þyrftu ekki
að taka þátt í könnuninni og að farið yrði
með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.
Spurningalistar fyrir alla foreldra voru sendir
heim með nemendum og sáu umsjónarkennarar
um að innheimta þá. Söfnun upplýsinga
frá nemendum í 1. bekk fór öðruvísi fram.
Aðstoðarmður sem ráðinn var til verksins sá
um að fylla spurningalistann út fyrir nemendur.
Hann las spurningarnar eða fullyrðingarnar
fyrir nemendurna og voru þeir síðan beðnir
um að velja andlit broskarls sem að þeirra
mati átti best við hverju sinni. Aðstoðarmaður
lagði spurningalistana fyrir í öllum skólunum
nema einum, þar sem rannsakendur sáu sjálfir
um það. Gagnasöfnun fór fram í október til
desember 2007, nema í einum skólanna, þar
sem hún fór fram í mars 2008. Unnið var úr
spurningalistum í SPSS 15.0.
Í þessari grein eru upplýsingar úr
framangreindum gögnum kynntar en þær
eru einskorðaðar við námsáhuga nemenda í
áðurnefndum bekkjum og sýn foreldra sömu
nemenda á námsáhuga barna sinna. Aðrar
niðurstöður þessarar rannsóknar verða kynntar
síðar í öðrum greinum.
Niðurstöður
Hér á eftir verða kynntar niðurstöður rann-
sóknarinnar um námsáhuga barna í 1., 3., 6. og
9. bekk og notaðar upplýsingar frá nemendum
og foreldrum þeirra. Fyrst verður sjónum beint
að námsáhuga nemenda frá sjónarhóli þeirra
sjálfra og skoðað hvort hann sé breytilegur
eftir kyni og aldri.
Í 1. bekk eru fjórar fullyrðingar sem mæla
námsáhuga nemenda en þær eru að: læra í
skólanum, lesa og læra heima, lesa í skólanum
og fara í skólann á morgnana. Almennt má
segja að nemendur í 1. bekk hafi verið jákvæðir
gagnvart skólanum eins og sést á 1. mynd.
Þremur af hverjum fjórum fannst gaman að
læra í skólanum en 45% fannst gaman að fara
í skólann á morgnana.
Lág en þó marktæk jákvæð fylgni er á
milli fullyrðinganna fjögurra. Lægst er fylgnin
Amalía Björnsdóttir, Baldur Kristjánsson og Börkur Hansen