Gripla - 01.01.2000, Page 45
GRETTIR VONDUM VÆTTUM
43
3. Grettisfærsla
í AM 556 a 4to frá lokum 15. aldar sem hefur að geyma sögur af útlögum,
þ.e. Gretti, Herði og Hólmverjum og Gísla Súrssyni, hefur verið skafið út
kvæði á tæplega þremur bls. (bl. 52r-53r), kallað Grettisfærsla. I Grettis sögu
er nefnt að ísfirskir bændur hafi handtekið Gretti í seli í Vatnsfirði og ætlað að
hengja hann vegna þess að enginn vildi geyma hann, þar til ákveðið hefði
verið hvað ætti að gera við hann og vísaði hver á annan. Segir sagan að kátir
menn hafi sett saman fræði er Grettisfærsla hét um viðræður bænda og aukið
þar í kátlegum orðum til gamans mönnum (Islendinga sögur: 1034). Við lok
Grettis sögu í AM 556 a 4to stendur svo að sögunni ljúki á fræði því er
Grettisfærsla heitir og Isfirðingar gerðu þá er þeir höfðu handtekið Gretti, en
margir síðan við aukið mörgum kátlegum orðum (bl. 52r, sbr. 1F VII:290).
Kvæðið hefur síðan verið skafið út.
í AM 556 a 4to er eyða á þeim stað þar sem fjallað er um handtöku Grett-
is í Vatnsfirði, þar sem blað hefur týnst úr bókinni. Af þeim sökum verður
ekki vitað hvað stóð í handritinu um handtökuna, káta menn og Grettisfærslu.
Sth papp 6 4to frá um 1660-1665 er sannanlega komið út af AM 556 a 4to, en
ekki er ljóst hvort það er beint eftirrit AM 556 a 4to eða hvort um einn milli-
lið er að ræða. Sture Hast (1960a: 192) telur að Harðar saga í Sth papp 6 4to sé
skrifuð beint eftir AM 556 a 4to. í Sth papp 6 4to stendur svo (bl. 31 lv):
og um alltt umtal þe/rra heffur Gr(ettir) Jn/zfærtt kuædi þad er Gr(ettirs)
færsla heitir og aukid þar J katligum prdum10 ti[l] gamanz monnum ...
Hér er Grettir sjálfur látinn færa Grettisfærslu inn og auka í hana í stað kátra
manna. Það verður hins vegar seint vitað hvort það var skrifari Sth papp 6 4to
eða AM 556 a 4to sem breytti textanum á þennan hátt.11 í Sth papp 6 4to (bl.
35 lr) er niðurlagsorðum sögunnar um káta menn hins vegar sleppt og
Grettisfærslu vantar, enda hefur hún sennilega verið skafin út á 16. öld.
Fræðimenn hafa glímt við að lesa kvæðið og tókst Guðbrandi Vigfússyni
að lesa svo mikið af upphafi þess að hann taldi að kvæðið hefði verið einhvers
konar sagnakvæði, líkt og Kötludraumur (1861:126, sbr. ÍF VII:168 nmgr.).
Ólafur Halldórsson gaf út það sem hann gat lesið af Grettisfærslu með því að
rýna í myndir af handritinu sem teknar voru í útfjólubláu ljósi, en hann gat les-
ið mun meira en aðrir menn fram að því (1960:51-54). Ólafi tókst að lesa það
mikið að ljóst er að Grettisfærsla hefur verið einhvers konar þula sem minnir
10 Skrifað með ‘0’, þ.e. „0iöum“.
11 Einnig gæti skrifari einhverrar formóður AM 556 a 4to hafa gert það eða skrifari mögulegs
milliliðar AM 556 a 4to og Sth papp 6 4to.