Gripla - 01.01.2000, Side 130
128
GRIPLA
erfiljóða eru óaðgengilegir. Hvað varðar fyrra atriðið er nauðsynlegt að líta á
kveðskap eins og erfiljóð í samhengi við lífssýn og menningu samtímans og
reyna að skilja hvaða hlutverki slíkur kveðskapur þjónaði þá. Erfiljóð, sem og
aðrar tegundir tækifæriskvæða, höfðu nefnilega félagslegu hlutverki að
gegna, um leið og þau voru vissulega bókmenntir — misjafnlega góðar eftir
atvikum, eins og bókmenntir eru jafnan.
Hér á eftir er ætlunin að túlka félagslegt og trúarlegt hlutverk erfiljóða 17.
aldar með því að gera grein fyrir þeim aðferðum sem skáldin notuðu til að
yrkja slík kvæði og þeirri orðræðu sem í þeim birtist, í samhengi við mennt-
un og menningu lærðra manna á 17. öld. Fjallað verður almennt um bók-
menntagreinina og dæmi tekin úr ýmsum erfiljóðum en síðan verður eitt erfi-
ljóð skoðað í ljósi hinnar almennu skilgreiningar og það gefið út í 1. viðauka
(bls. 167-174). Erfiljóðið sem hér liggur til grundvallar er ort af séra Guð-
mundi Erlendssyni í Felli í Sléttuhlíð (um 1595-1670) eftir Ólaf Jónsson
klausturhaldara á Möðruvöllum í Hörgárdal (d. 1621). Kvæðið er skrifað upp
eftir handritinu JS 232 4to. Ástæðan fyrir þessu vali er sú að séra Guðmundur
var mjög afkastamikið erfiljóðaskáld á 17. öld og í þessu kvæði birtast flestir
þeirra efnisþátta sem einkenna bókmenntagreinina. Skrá yfir önnur erfiljóð,
sem vitnað er til í greininni, er birt í 2. viðauka (bls. 174-177).
Eins og sagði að framan hefur aðaleinkenni íslenskra erfiljóða frá 17. og
18. öld verið talið það að hinum látna sé hrósað fyrir kristilegar dygðir, sem
geri mynd hans ópersónulega og óraunsæja. Svipuð einkenni má finna í erfi-
ljóðum annarra Evrópuþjóða frá þessum tíma. Hlutverk danskra erfiljóða,
d0dedigte, frá barokktímanum er til dæmis talið felast í því að útskýra og
staðfesta ákveðna heimsmynd. Áhersla er lögð á að kvæðin lýsi ekki raun-
veruleikanum heldur gegni þau hugmyndafræðilegu hlutverki, þar sem hinn
látni er gerður að trúarlegri fyrirmynd (Ole Riber Christensen o.fl. 1973:142-
44). Svipaða túlkun á enskum minningarljóðum, the remembrance, má sjá í
grein eftir Nancy A. Gutierrez (1988). Hlutverk þeirra er, samkvæmt henni,
að kenna mönnum ákveðna hegðun og hún kallar þau „fyrirmyndarbók-
menntir“, model literature, sem séu meira í ætt við blaðamennsku en fagur-
fræði bókmennta. Vissulega má segja að erfiljóð lýsi jafnan fyrirmyndar-
manninum og staðfesti ríkjandi hugmyndafræði (sem er þó ekki endilega ein-
kenni einnar bókmenntategundar fremur en annarrar), en það er aðeins einn
þáttur af mörgum sem brýnt er að taka tillit til þegar félagslegt og trúarlegt
hlutverk bókmenntagreinarinnar er túlkað.
Mikilvægt í þessu sambandi er að átta sig á því umhverfi sem erfiljóðin
verða til í og af hvaða rótum þau eru sprottin. Því ber að hafa í huga að á
þessum tíma voru flest erfiljóðaskáld prestar, eða menn sem gengið höfðu í
latínuskóla, og þeir ortu um presta, biskupa, sýslumenn og lögmenn, mæður