Gripla - 01.01.2002, Page 152
150
GRIPLA
Allir kannast væntanlega við framhald þessarar sögu. Abraham fékk allt marg-
falt til baka og bæði eiginkonur og hjákonur í ætt hans eignuðust fjölda sona
og frá honum er mannkynið komið.
Sören Kierkegaard, í gervi hins þögla Jóhannesar, kemst að þeirri niður-
stöðu að skelfilegt sé að fóma syni sínum og allt mæli gegn því, jafnvel þó að
boð um það komi frá Guði. Abraham ákveður hins vegar að hlýða boði Guðs
en sú ákvörðun byggist á trú en ekki skynsemi. Hún er fjarstæðukennd en
engu að síður rétt. í slíkri ákvörðun er fólgin sú vitneskja að eitthvað sé mann-
inum æðra og þar með hafið yfír röklega hugsun. Því getum við einungis
tengst með trúarlegri eða tilfinningalegri ákvörðun. Abraham er tilbúinn að
fóma því sem honum er kærast og þar með sjálfum sér og eigin föðurhlutverki
en í staðinn fá þeir feðgar föður á himnum. Eða eins og Jesús boðar lærisvein-
um sínum: „Hver sem hefur fundið líf sitt, mun týna því, en hver, sem hefir
týnt lífi sínu mín vegna, mun finna það“ (Mt 10.39).
Kierkegaard túlkar fómarsöguna þannig að Abraham hlýði Guði ekki í
blindni heldur velji hann að treysta honum. Sú niðurstaða er afar mikilvæg
vegna þess að í henni felst sá skilningur að trúin byggist ævinlega á vilja, vali
og ákvörðunum sem hvíli á siðfræðilegum gmnni. Handan góðs og ills, á úr-
slitastundum lífsins, endi rök og kennisetningar og styrinn standi um að trúa
eða trúa ekki. Hið fullkomna trúnaðartraust í samskiptum mannanna byggist
að hans mati einnig á vali og ákvörðun.
Kierkegaard átti svo eftir að skipta mannlegri tilvist í þrjú þroskastig: fag-
urfræðilegt, siðrænt og trúarlegt og til þess að ná því síðasta þarftu að velja
sjálfan þig og persónulegan sannleika þinn. Kierkegaard hefur verið kallaður
upphafsmaður að tilvistarstefnunni sem þekkt varð á tuttugustu öld og heyrist
oftast nefnd í tengslum við Þjóðverjann Martin Heidegger og Frakkann Jean-
Paul Sartre.
Hvemig í ósköpunum tengist þetta Brennu-Njáls sögu? Hvað er líkt með
Abraham og Njáli Þorgeirssyni? Áður en hægt er að bera saman sögur af þeim
tveimur þarf að líta yfir val og aðgerðir Njáls í sögunni og hafa sérstaklega í
huga mannlega skynsemi, rökvísi og framsýni annars vegar og tilfinninga- eða
trúarlegar afstöður hins vegar. Til þess þarf að rifja upp nokkur atriði sem em
öllum, sem hafa lesið bókina, meira og minna kunn. Þó held ég að sé þarflegt
að fara yfir þau til þess að við sjáum þau fyrir okkur í samhengi.6
6 Njálutilvitnanir eru í Vef Darraðar, diskútgáfu (Jón Karl Helgason o.fl. 2001) af Reykjabók
(AM 468 4to), sem fylgdi bókinni Höfundar Njálu, en texti íslenzkra fornrita er hafður til
hliðsjónar í greininni (Brennu-Njáls saga).