Gripla - 01.01.2002, Page 191
SKRIFANDI BÆNDUR OG ÍSLENSK MÁLSAGA
189
betur en brúksbækur almúgamanna, eins og Ólafur Halldórsson (1989:68) hef-
ur bent á. Skortur á varðveittum skrifum kotkarla frá tólftu og þrettándu öld er
því ekki fullkomin sönnun þess að þeir hafi ekki sýslað við bókagerð á þeim
tíma. Málsagan verður þó ekki byggð á öðru en varðveittum handritum og því
verður ekki hjá því komist að leggja mat á þær heimildir sem fyrir hendi eru.17
Fjórtánda öldin var öld glæsibóka; Skarðsbók Jónsbókar (AM 350 fol) og
Flateyjarbók (GKS 1005 fol), svo einhverjar séu nefndar, bera vitni stórum
hug og miklum efnum. Verkkaupar voru ekki einvörðungu innlendir efnamenn
á borð við Jón Hákonarson í Víðidalstungu, heldur voru líka skrifaðar bækur
til útflutnings, eins og Stefán Karlsson (1978, 1979) hefur sýnt fram á með
sannfærandi hætti. Markaðssvæðið var gjörvallt Atlantsveldi Noregskonungs
og skrifaramir íslensku hafa verið atvinnumenn.
Fjórtánda öldin var líka öld skrifandi stórbænda. Akrafeðgar í Blönduhlíð
í Skagafirði, Brynjólfur Bjamarson bóndi og synir hans Benedikt og Bjöm,
skrifuðu bækur og bréf undir lok aldarinnar. Hönd Brynjólfs er að finna á
tveimur bréfum árið 1378, Benedikt sonur hans hefur líklega skrifað bréf
1385, 1391 og 1394. Skriftin á þessum bréfum er æði lík skriftinni á bæði
Reykjarfjarðarbók Sturlungu, AM 122 b fol, og AM 62 fol sem á er Ólafs saga
Tryggvasonar. Skiptar skoðanir hafa verið um fjölda handa og handaskipti á
Reykjarfjarðarbók, en Stefán Karlsson (1970:120-30) hefur leitt að því getum
að hún hafi verið skrifuð af einum manni á alllöngum tíma, hugsanlega Bimi
Brynjólfssyni á Ökmm. Meint handaskipti á Reykjarfjarðarbók endurspegla
þá nokkur þróunarstig í skrift sama manns og, eins og Stefán (1970:130)
bendir á, er þá líklegra að skrifari, sem hefur haft í ýmis önnur hom að líta,
hafi gert hana handa sjálfum sér eða húsbónda sínum, heldur en atvinnuskrif-
ari hafi gert hana eftir pöntun.18
17 Vitaskuld er ekki líklegt að fátækir kotbændur hafi fengist við bókagerð að neinu marki og því
er hér átt við efnaða bændur þegar rætt er um skrifandi menn úr þeirri stétt. Einar OI. Sveins-
son (1944:196-97) taldi að í lok tólftu aldar hefði allur þorri höfðingjaog hinnagildari bænda
verið læs og skrifandi og á þrettándu öld hefði ritlist verið orðin almenn meðal leikmanna.
Ýmsum hefur þótt þetta ofmælt hjá Einari en líklegt verður að teljast í ljósi mikillar bókagerð-
ar á fjórtándu öld að þá hafi lestrarkunnátta verið orðin nokkur meðal gildra bænda og hugs-
anlega eitthvað verið farin að teygja sig til þeirra efnaminni (sjá Stefán Karlsson 1970:131—40
og 1998:294-95, einnig Loft Guttormsson 1989:121-26).
18 Fleiri hafa fjallað um Reykjarfjarðarbók og handrit með skyldum höndum, svo sem Peter
Foote (1990), Ólafur Halldórsson (1993) og Svanhildur Óskarsdóttir (2001:79-81 ásamt til-
vísunum). Foote (1990:38—42) komst að þeirri niðurstöðu að tveir skrifarar hefðu staðið að rit-
un hennar; það breytir því ekki að hluti hennar hefur líklega verið skrifaður af sama manni á
löngum tíma.