Gripla - 01.01.2002, Page 260
258
GRIPLA
rýnan lestur rits sem þessa geti menn greint á við höfundinn og fundist sem í
einhverju sé ofgert, í öðru van og að sitthvað sé missagt eða orki tvímælis.
Fyrri andmælandi hefur einkum gert bókmenntafræðilega og bókmenntasögu-
lega þætti bókarinnar að umtalsefni. Það fellur í minn hlut að ræða um fyrsta
hluta verksins, þ.e. könnun doktorsefnis á handritum og venslum þeirra, sem
og um sjálfa útgáfu textanna.
Áður en ég sný mér að því koma þó nokkur orð um frágang verksins í
heild. Fyrst er þar að nefna hnökra sem lítilfjörlegir mega kallast þótt venja sé
að tíunda þá við próf sem þetta. Nokkrar prentvillur eru í bókinni — flestar
saktausar í þeim skilningi að þær valda ekki misskilningi, og fjölyrði ég ekki
um þær heldur afhendi doktorsefni lista þar um. Þá em dæmi um smáslys eins
og á bls. 184 þar sem gríska orðið lykanthropos er sagt latneskt og í neðan-
málsgrein 311 þar sem varúlfatrú Norðmanna er sögð lifa vel fram á 20. öld og
það byggt á tilvitnun sem sýnir að höfundurinn sem í hlut á, á þar við 19. öld.
Formlegur frágangur tilvísana, bæði millivísana og neðanmálsgreina,
sem og heimildaskrár og annarra skráa í bókarlok er góður. Eilítið sérkenni-
legur er sá háttur Aðalheiðar að tiltaka fæðingarár (og dánarár þar sem það á
við) þeirra fræðimanna sem hún vitnar til. Reglan virðist vera sú að birta ártal-
ið þar sem fræðimanns er fyrst getið í meginmáli, þrátt fyrir að stundum hafi
verið vísað nokkuð ítarlega til þeirra áður í neðanmálsgreinum. Nú er það svo
að lesandinn hefur ekki sérlega mikið gagn af þessum upplýsingum en hins
vegar er þægilegt að sjá að bragði hvenær það rit birtist sem vísað er til. Þær
upplýsingar verður lesandinn hins vegar að sækja í heimildaskrána, því slík ár-
töl rita er hvorki að finna í meginmáli né neðanmáls. Seint verður þetta þó tal-
ið úrslitaatriði um notagildi bókarinnar. Meiru skiptir að á tilvísunum eru
stundum þeir annmarkar að Aðalheiður vitnar í eftirheimildir eða handbækur
þar sem gera verður þær kröfur að vísað sé til frumheimilda. Einfalt dæmi um
þetta er á bls. xlviii þegar hún vitnar til handritaskrár Kálunds um athugagrein-
ar Áma Magnússonar um handrit hans, en venja er að vísa þar til útgáfu frum-
heimildarinnar, Arne Magnussons i AM 435 A-B, 4to indeholdte hándskrift-
fortegnelser. Bagalegri dæmi er einkum að finna í fimmta kafla verksins, til
dæmis í þeim undirkafla sem fjallar um varúlfsminnið. Þar er sagt, á bls.
clxxxvii, að elsta fullmótaða varúlfasagan sé varðveitt innan skáldsögunnar
Satýrikon eftir Petróníus og sú saga er síðan notuð til samanburðar við Streng-
leikasöguna af Bisclaret í nmgr. 288 tveimur blaðsíðum síðar. Enga beina til-
vísun til Satýrikon er þó að finna í bók Aðalheiðar (og er verkið þó vel að-
gengilegt í nýlegri íslenskri þýðingu) og Petróníus er heldur ekki nefndur í
heimildaskrá. Eingöngu er vitnað til verksins gegnum eftirheimildir.