Gripla - 01.01.2002, Page 263
ANDMÆLARÆÐUR
261
er um að skrifari skrifi sambærileg orð út með stoðhljóði — þau eru alls staðar
bundin. Hér má því spyrja: Gengur ekki sú túlkun sem felst í upplausninni
lengra en efni standa til? Er hér bragnum fómað á altari samræmis í frágangi?
Lítum næst á umfjöllun um handritið, á bls. xxxi-xlvi. Þar byggir doktors-
efni á skrifum annarra fræðimanna sem eðlilegt er, því allnokkrir hafa um
Staðarhólsbók fjallað. Ljósprentun handritsins var gefín út árið 1938 en í inn-
gangi Williams Craigie að þeirri útgáfu er einkum fjallað um rímur sem kveð-
skapargrein en handritinu sjálfu einungis lýst stuttlega (Craigie 1938:5-7).
ítarlegri umfjöllun um handritið er að finna í grein eftir Jón Helgason, sem
birtist í Skírni árið 1932, og um feðga þá sem ætlað er að skrifað hafi handritið
hafa auk þess fjallað Stefán Karlsson (1970:139-140) og Ólafur Halldórsson
(1966:25-27). Þrátt fyrir að úr ýmsu sé að moða fínnst mér doktorsefni
skammta lesendum sínum fróðleikinn fullnaumt. Þannig á t.d. flest af því sem
Aðalheiður tilfærir í nmgr. 36, um blaðsíðumerkingar og efnisyfirlit, betur
heima í meginmáli. I staðinn hefði mátt telja í neðanmálsgrein allar þær rím-
ur sem varðveittar eru í handritinu en um slíkar upplýsingar vísar Aðalheiður
til ljósprentuðu útgáfunnar. Þær hljóta þó að vera áhugaverðar fyrir lesendur
Úlfhams sögu, ekki síst í ljósi þess að Aðalheiður beinir í verki sínu mjög
sjónum að viðtökum rímna og prósa. Það er fróðlegt í því sambandi að athuga
hvaða rímur skrifarar Staðarhólsbókar festu á bók og í hvaða röð. í lýsingum
sínum á aðalhandritum A- og B-gerðar Úlfhams sögu getur Aðalheiður um
annað efni í handritunum. A-gerðin er þar í flokki með efniságripum af Orm-
ars rímum, Rímum Gríms og Hjálmars og Rímum af Sigurði Fomasyni en
tvennar þær fyrmefndu em í Staðarhólsbók. Af tólf sögum sem er að finna í
handriti B-gerðar geymir Staðarhólsbók rímnagerðir fjögurra, þ.e. Sigurðar
rímur þögla, Dámusta rímur og Rímur frá Sálus og Níkanór auk Vargstakna.
Það hefði því bæði verið til samræmis og áhugavert fyrir lesendur að fá yfirlit
um efni Staðarhólsbókar í kafla 2.1.
Upplýsingar um skrifara handritsins og ritunartíma hefur doktorsefni frá
þeim Kristian Kálund, Jóni Helgasyni og Ólafí Halldórssyni en rannsóknir
þeirra leiddu í ljós að bókin hefði verið skrifuð af Ara Jónssyni, sonarsyni Sol-
veigar Bjömsdóttur Þorleifssonar, og sonum hans tveimur Jóni og Tómasi.
Aðalheiður fer fljótt yfir þá sögu og rekur t.a.m. ekki nákvæmlega þau rök sem
þeir Jón og Ólafur hafa fyrir því að tímasetja ritun bókarinnar til miðrar 16.
aldar eða laust fyrir það. Þó nefnir hún það einkenni handritsins sem Jón
Helgason benti á að bæri vott um að bókin væri skrifuð í kaþólsku. Hún segir: