Gripla - 01.01.2002, Side 283
SVÖR VIÐ ANDMÆLARÆÐUM
281
hunda, sem nefndir voru írskir úlf-hundar, til að elta þá uppi. Menn töldu að
enn væri talsvert um þá á 17. öld og heimildir geta um að úlfar hafi verið
felldir í Wexfordsýslu á árunum 1730-40 og í Wicklow fjöllum var úlfur felld-
ur árið 1770. Hvort tveggja er á suð-austur Irlandi (sbr. Camden’s Britannia
7695:645, 655, 947 og 965, Summers 1934:180-185).3 Mér er ekki kunnugt
um að heimildir geti um úlfa á írlandi eftir þetta, en þó má finna a.m.k. tvær
varúlfasögur í írskum þjóðsagnasöfnum frá 19. öld, m.a. safni Williams Lar-
minie, West Irish Folk-tales and Roniances (1898:17-29, sbr. ennfr. John R.
Reinhard og Veman E. Hull 1936:43) þar sem varúlfsminnið ber svip af þeim
keltnesku miðaldasögum sem um er rætt í riti mínu.
Þessi saga um úlfa á Bretlandseyjum og útrýmingu þeirra, og þar með fjar-
vem þeirra í írsku og skosku þjóðfræðaefni, fannst mér hvorki koma umrædd-
um kafla um varúlfsminnið við, né hafa áhrif á niðurstöður mínar, enda nær
samanburðarefni mitt einungis til miðaldasagna. Þá er því hvergi haldið fram
að varúlfar þessara sagna byggi á raunverulegri þjóðtrú; íslenskar varúlfasög-
ur sýna, svo að ekki verður um villst, að úlfar þurfa hvorki að vera landlægir
né koma fyrir í þjóðfræðaefni síðari alda, til að skjóta upp kollinum í sagna-
hefð miðalda. Þótt ekki verði séð að athugasemd andmælanda míns hafi áhrif
á umfjöllun mína um varúlfsminnið gefur hún engu að síður tilefni til frekari
rannsókna á hinu gelíska (og keltneska) efni.
í framhaldi af umræðu sinni um varúlfa benti andmælandi minn á svokall-
aða „mannhunda" (‘dog men’ — kempur), sem koma fyrir í írskum sögnum
og eru e.k. hermenn sem bregða sér í hlutverk varðhunda og gegna álíka hlut-
verki og úlfhéðnar eða berserkir (bls. 251). Ég er þess fullviss að það kynni að
vera gagnlegt að bera slíkar sagnir saman við hið norræna efni, sérstaklega
með tilliti til úlfhéðna, berserkja og annars konar dýrahermanna. Um berserki
hef ég nýlega fjallað á öðrum vettvangi (Aðalheiður Guðmundsdóttir 2001) og
á hvorutveggja minnist ég ennfremur í inngangi mínum að Ulfhams sögu (bls.
cxci og ccxi-ccxv). En eins og þar kom fram (bls. clxxxi, nmgr. 262) reyndist
efni tengt varúlfsminninu það umfangsmikið, að réttast þótti að gera hluta þess
skil annars staðar. Nánari umfjöllun um dýrahermenn er meðal þess sem
klippt var úr umræddum kafla og bíður frekari úrvinnslu.
3 Við samningu svara þessa reyndist mér alls ómögulegt að afla allra þeirra frumheimilda sem
Summers (eftirheimild) vitnar til, enda oftast um að ræða gömul rit (bæði skjöl og bækur).
Leitað var til erlendra safna, auk Háskólabókasafns Islands - Landsbókasafns.