Gripla - 01.01.2002, Síða 304
302
GRIPLA
gera lestrarútgáfu Ynglinga sögu eða þýða hana væri gagnlegt að fá skýringar
á því þegar munur er á texta þessarar útgáfu og hinna fyrr nefndu. Þar er
vissulega aldrei um annað en smámuni að ræða.
Hin eiginlega doktorsritgerð er grundvöllur útgáfu á Kringlu allri með lýs-
ingu sinni á handritunum, könnun á sögu þeirra og venslum. Ritgerð þessi er
einnig í raun framlag til bókmennta- og menningarsögu Norðurlanda á
seytjándu og átjándu öld.
Eftir að höfundur hefur gert skipulega grein fyrir handritum Heimskringlu
og venslum þeirra, í samræmi við það sem best er vitað, víkur hann að nöfn-
unum Kringla og Heimskringla, og er freistandi að bæta nokkrum athuga-
semdum við ábendingar hans. Heimskringla er auðvitað skrýtið nafn á kon-
ungakröníku og mundi hæfa betur landalýsingu, en þetta er fallegt nafn og
virðulegt og nú um langt skeið órjúfanlega tengt þessu ágæta verki. En það er
Kringla sem kemur fyrst fram og þá sem nafn á því handriti sem ritið fjallar
um. Höfundur vitnar til Ole Worm. í inngangi sínum að þýðingu Peder Claus-
s0n segir hann um verkið: „som de kaldis Kringlu Heimsens, aff de to fprste
Ord i bogen ...“ Sá sem fyrst gerði eftirrit eftir Kringlu, Jón Eggertsson,
þekkti auðvitað þetta nafn. Það kemur fram í kvæði sem hann lét fylgja hand-
riti sínu til Svíþjóðar. Þar kveður hann: „Kaldalendskan kusu til / Kringlu
heims út skrifa“, og er þá auðvitað að segja að þeir, þ.e. Svíar, hafi fengið ís-
lending til að skrifa upp texta Kringlu, en í öðru erindi, sem stendur framar í
kvæðinu, er röð liðanna snúið við. Þar yrkir Jón:
Heims er kringla hripuð út,
höfugleikinn veldur,
fékk ei vandað fjaðra lút,
fór af laginu heldur.
Jón þekkti nafnið Kringla heimsins, en eins og fjöldi skálda fyrr og síðar
breytir hann röð orða í eignarfallssambandi til að fá fram öflugri stuðlasetn-
ingu og betri hrynjandi. I útgáfu Peringskiölds 1697 og í öllum síðari útgáfum
á frummálinu heitir verkið síðan Heimskringla (í einu eða tveimur orðum),
enda aðalregla sænsku og dönsku að eignarfallsliður standi framar í slíkum
samböndum. Til að skilja hve mikla þýðingu gott heiti getur haft fyrir bók-
menntaverk þurfum við ekki annað en minnast þeirrar konungakröníku sem
líklega kemst næst Heimskringlu að listrænu gildi. Hún hefur alveg óverð-
skuldað fengið nafnið Morkinskinna, og etv. á það einhvem þátt í því hve
fræðimenn hafa gefið henni lítinn gaum fram á síðustu ár. Nafnið Kringla eða