Skírnir - 01.01.1970, Blaðsíða 68
66 SVEINN SKORRI HÖSKULDSSON SKÍRNIR
sem bækur félagsins voru. Þannig vantar nákvæmar heimildir mn
tímabilið 1902-05, eða þrjú starfsár. Verður síðar að því vikið.
Nú kom í ljós, að uppskriftir mínar töldu 50 bækur, sem ekki voru
í innkaupaskrám Gjörðabókar. Ég álykta sem svo, að þær hafi
komizt í eigu félagsins 1902-05, og eru margar gjöf frá Oddi
Björnssyni prentara og flestar þeirra gefnar árið 1902. Verður birt-
ur sérstakur listi yfir þessar bækur á eftir skránni um bækurnar,
sem keyptar voru 1889-1902.
Gjörðabók telur 335 verk eftir 186 nafngreinda höfunda, og hafa
12 þessara verka verið til í tvítaki og eru 11 þeirra til enn. Þá var
eitt verk, Arbeidsfolk eftir Kielland, til í tveimur útgáfum og annað,
Merrie England eftir Blatchford, á tveimur málum (ensku og
norsku). Eins og sjá má af ljósprentun af skrá um keyptar bækur
1890-91 gegnt 96. bls., nefnir Gjörðabók höfunda, nokkuð glögga
bókatitla og verð, en ekki útgáfustaði eða ár.
Tvær prentaðar bókaskrár eru til um Bókasafn S-Þingeyinga, útg.
á Akureyri 1910 og 1959.1 Með hjálp þeirra og bókfræðiheimild-
anna Bibliotheca Norvegica I-IV, Chra. 1899-1924, Norsk Bogfor-
tegnelse 1883 o. áfr., Bibliotheca Danica I-V, Kh. 1961-63 og Dansk
Bogfortegnelse 1841 o. áfr. svo og British Museum General Cata-
logue of Printed Books, London 1959 o. áfr. og fleiri rita gerði ég
skrána. Er því var lokið, fór ég með hana til Húsavíkur til að bera
hana saman við bækurnar sjálfar í safninu. Naut ég við þann saman-
burð góðrar hjálpar bókavarðar, Þóris Friðgeirssonar. Kom í ljós,
að af 335 verkum, sem Gjörðabók taldi hafa komið í eigu Ófeigs í
Skörðum og félaga, eru 289 enn í safninu. Af hinum 46 voru 11 seld
Menntafélagi Mývetninga 1893-94, svo sem frá er skýrt í Gjörðabók.
Virðast því 35 verk hafa glatazt eða ónýtzt. Auk þeirra 35 verka,
er munu þannig vera glötuð, hafa horfið úr safninu eitt tvítak
(Huxley: Almenfattelig videnskab. I. Grundtræk) og síðari útgáfan
af Arbeidsfolk Kiellands. Allar þessar tölur ber vitanlega að taka
með þeim fyrirvara, að mér kunni að hafa sézt yfir bækur eða ég
hafi mistalið, en varla mun það skakka miklu.
Þau 46 verk úr eigu Ófeigs í Skörðum og félaga, sem ekki eru
lengur í safninu, hafa öll verið á norsku og dönsku, og eru titlar
þeirra, útgáfustaðir og -ár hér tekin eftir Norsk og Dansk Bogfor-
tegnelse. Ber vitanlega að hafa í huga, að þar er um tilgátur að ræða,