Skírnir - 01.09.1996, Blaðsíða 15
SKÍRNIR
HUGTAKIÐ RÓMANTÍK
261
sýn sem oftast varð fyrir valinu með þessu orði var af dalverpi
með skógivöxnum fjallshlíðum sem horfðu móti á eða vatni.
Þessi skilningur orðsins kemur einkar vel í ljós í fyrirlestri sem
sænska skáldið Esaias Tegnér flutti árið 1824 um hið rómantíska í
grískum skáldskap, en þar bar hann saman almenna fegurð og
rómantíska og sagði: „Grískt hof með fastmótuðum, samhverfum
hlutföllum sínum er fagurt; en landslag þar sem skiptast á dalir og
hæðir, tré og vötn er rómantískt."12 Sama hugsun kemur fram í
máli danskrar samtímakonu Jónasar Hallgrímssonar, Charlotte
Munch árið 1849, þegar hún lýsir sumarhúsi sínu og segir að það
sé „ekki neinn rómantískur kofi, því að það er hvorki í skógi né
við vatn, heldur á fremur gróðursnauðri hæð“.13 Misjafnt var hins
vegar hvort þetta myndræna landslag mótaðist af kyrrð og sum-
arsæld, eins og hjá Jónasi, eða því stórbrotna og ógnþrungna, og
oft fóru þessar andstæður saman. Sum skáld gerðu þær jafnvel að
eiginlegum forsendum rómantískrar fegurðar.
Þessi samsömun rómantíkur og náttúrufegurðar hefur orðið
afar langlíf í vitund manna, eins og Benedikt Gröndal greindi frá í
fyrirlestri sínum „Um skáldskap“ frá árinu 1888:
Rómantískt kalla menn eitt landspláss, þegar það hefur einhverja ein-
kennilega fegurð - foss í hamragili og grænar blómvaxnar brekkur til að
mynda, það er rómantískt og er ætíð kallað fagurt - eða sólskinin fjöll
með grænum hlíðum [...].14
I skáldskap og myndlist 19. aldar voru rústirnar eða grafreit-
urinn enn eitt kennimark rómantísks landslags. Þar birtist mönn-
um andi forfeðranna, jafnframt því sem náttúra og menning
runnu saman í eitt.15 Oft voru rústirnar líka látnar samsvara hug-
arástandi manna, þunglyndi og andúð á menningu samtímans.
Ekki er óhugsandi að Jónas Hallgrímsson hafi verið undir
12 Esaias Tegnér. „Om det Romantiska i Grekiska Poésien," Samlade Skrifter
IV. Stokkhólmi 1920, 165.
13 Breve fra og til Me'ir Goldscbmidt I. Kaupmannahöfn 1963, 195.
14 Benedikt Gröndal. „Um skáldskap," Ýmislegt. Reykjavík 1932, 64.
15 Sbr. Henning Howlid Wærp. „Romantikkens ruiner - og begrebet det
pittoreske,“ Edda 1995/2, 176-81.