Skírnir - 01.09.1996, Blaðsíða 38
284
ÞÓRIR ÓSKARSSON
SKÍRNIR
trölla skáld, hann er dagsins kvæðakongur, hann er tímans óska-
barn [...]. Hann er í einu orði að segja: realisti, eins og flest skáld
nú á dögum þykja vera“. Hér er eins og ritdómarinn hafi snúið
við blaðinu og sé tekinn að þylja upp úr skrifum raunsæismanna
sem brigsluðu eldri skáldum iðulega um að vera einhvers konar
„tunglskins eða nátt-trölla skáld“. Það er því engu líkara en
Matthías kjósi að standa utan flokka. Hið sama má ráða af loka-
orðum hans, almennri hugleiðingu um skáldskap:
Skáld meiga ekki sinna hégóma eða hleypidómum, hið sanna almenna
(ópersónulega), hið ævaranda, hið fagra og góða, sem veitir bæði fasta
lífsskoðun og listamannsins ró og tign - það á að vera matur og drykkur
hvers andríks manns. Hvort skáldið er fremur það, sem kallað er realisti
en idealisti, hefir minni þýðingu, því allt er undir því komið, að vel sé ort
fyrir þá öld, sem ort er fyrir.
Eins og þessi orð bera með sér telur Matthías að dilkadráttur
skálda í realista og ídealista sé tilgangslítill.53 Það kann því að
þykja einkennilegt að þær fagurfræðilegu kröfur sem hann setur
fram, þ.e. að „hið sanna almenna (ópersónulega), hið ævaranda,
hið fagra og góða“ sé matur og drykkur hvers andríks manns,
virðast mjög í anda ídealista.54 Það sýnir kannski hvar hugur
Matthíasar hefur helst dvalið þrátt fyrir allt.
Matthías skipar sér einnig utan flokka í ritdómi sínum um
Verðandi árið 1882, þegar hann segist standa „að áratölunni mitt
á milli hinna eldri (Idealistanna) (?) og hinna ungu (Realistanna)
(?)“.55 Þótt hann nefni hér engin nöfn virðist ljóst að með ídeal-
istum eigi hann við skáld eins og Grím Thomsen, Benedikt
Gröndal og Steingrím Thorsteinsson en með realistunum við
Verðandimenn. Um leið sýna spurningarmerkin tvö að hann hef-
ur haft einhverjar efasemdir um réttmæti þess að nota hin and-
stæðu hugtök við að greina á milli skáldakynslóðanna tveggja.
53 Sbr. líka Bréf Matthíasar Jochumssonar til Hannesar Hafsteins. Reykjavík
1959,20.
54 I augum raunsæismanna tengdist hið sanna einstaklingum, stund og stað.
55 Matthías Jochumsson. „Smápistlar til ritstjóra ,Fróða‘,“ Fróði, 31. júlí 1882,
dálkur 223.