Skírnir - 01.09.1996, Blaðsíða 159
SKÍRNIR
AMERÍKU-STEPHÁN
405
taldi kirkjuna hafa svikist undan í stríðinu. Með þessum tilbrigð-
um í táknmerkingu er meginhugsunin í kvæðinu sú, með hár-
beittri tilvísun til íslenskra Kanadamanna, að stríð sé í eðli sínu
margþætt svik mannsins við uppruna sinn, við náunga sinn, og
því við það besta í manninum sjálfum.
Land-ráðamenn þjóð-verjast á ritvellinnm
Afstaða Stephans til stríðsreksturs gekk í berhögg við ríkjandi
hugarfar í Kanada. Islensk-ættaði rithöfundurinn David Arnason
segir í greininni „Icelandic Canadian Literature“ að Stephan hafi
brotið blað í kanadískri bókmenntasögu með nútímalegri gagn-
rýni á ríkjandi samfélagsgerð og að hernaðarádeila hans hafi enga
hliðstæðu átt meðal samtíða ljóðskálda í Kanada (61).19 David
segir að á meðan aðrir Kanadamenn hafi ort til að upphefja stríð
- lofsyngja mannfórnir á vígvellinum sem réttmætar hetjudáðir -
þá hafi Stephan skipað sér í flokk með örfáum samtímaskáldum,
s.s. Bretunum Wilfred Owen og Sigfried Sassoon, sem höfnuðu
þessu gildismati og boðuðu frið (61).20 Að sögn Davids kvað ekki
við þennan tón í kanadískum bókmenntum fyrr en að minnsta
kosti fimmtán árum síðar (62).
Vestur-íslendingar sáu lítinn friðarboðskap í skrifum Steph-
ans - fannst hann heldur fara með ófriði gegn fóstur-landinu þeg-
ar síst skyldi. I „Á rústum hruninna halla“ fer Stephan heldur
varlegar að vestur-íslenskum lesendum sínum en hann gerir víða í
Vígslóða. I stað þess að ögra vestur-íslenskum hermönnum og
19 Sjá Identifications: Ethnicity and the Writer in Canada, ritstj. Jars Balan (Al-
berta, Kanada: The Institute of Ukrainian Studies, 1982) 53-66. Birtist fyrst í
Lögbergi-Heimskringlu 15. janúar 1976.
20 Stephani sjálfum fórust svo orð í bréfi til Jóhannesar Pálssonar: „Skáld og
listamenn ganga í ,torfum‘ (sem nefnast ,skólar‘), rétt eins og síldin okkar ís-
lenzka. Ég hefi ekki haldið, að það tæki því að telja mig til neinnar, ég væri
svolítill útúrskotningur aðeins“ (3: 137). Svar hans við því að Jóhannes áliti sig
„individualista," eða „einyrking“, var að ef hann ætti að skipa sjálfum sér í
einhvern flokk þá teldi hann sig „universalista" - „umfeðming“ sem vildi
„bæta umhverfið, svo mennskir menn geti vaxið þar og viðhaldizt, því, nema
það takist, verða þeir alltaf kyrktir og drepnir út, eins og kornið af þistlunum
og þyrnunum“ (3: 137).