Skírnir - 01.09.1996, Blaðsíða 175
SKÍRNIR
SAGA MANNKYNS
421
unna ekki sköpunarverkum sínum hins óendanlega gagns sem
nærvera slíkrar veru myndi færa þeim og um leið nöldruðu þeir
við hann yfir hlutskipti manna og kvörtuðu að nýju með hinum
forna andstyggilega hætti yfir smæð og fábreytileika heimsins.
Og þar sem tálsýnirnar undurfögru, sem höfðu látið allt hið góða
af sér leiða á fyrri tímum, nutu orðið lítillar virðingar, - ekki
vegna þess að menn vissu nú þegar hverjar þær raunverulega
væru heldur olli almenn hugsanalágkúran og siðspillingin því að
nær enginn fylgdi þeim lengur eftir - formæltu nú mennirnir með
glæpsamlegum hætti þessari mestu gjöf sem hinir eilífu höfðu
fært og gátu fært hinum dauðlegu, grenjuðu að jörðin væri ein-
ungis talin boðleg hinum allra minnstu öndum og að hinum
meiri, sem mannkyn væri viljugra til að lúta, væri hvorki boðlegt
né heimilt að stíga fæti á þennan auvirðilegasta blett alheims.
Frá því fyrir alllöngu hafði ýmislegt átt þátt í að rýra velvild
Júpiters í garð mannanna, meðal annarra hluta óviðjafnanlegir
lestir og glæpir sem tóku illverkum þeim er refsað var með
syndaflóðinu langt fram hvað varðar fjölda og illsku. Eftir að hafa
þurft að þola svo margt tók honum að gremjast órólegt, óseðj-
andi, óhófsamt eðli mannsins og honum var nú fullljóst að til
friðþægingar hans, hvað þá til að gera hann hamingjusaman,
leiddi engin aðgerð, væru engar aðstæður réttar, dygði enginn
staður. Því þótt hann tæki þá ákvörðun að auka enn milljónfalt á
bæði rúm og gleðigjafa jarðar og á allt sköpunarverkið í heild
myndi það allt innan skamms virðast manninum, sem girnist
óendanleikann jafn mikið og hann er óhæfur til hans, þröngt,
óviðkunnanlegt og fáum kostum búið.
En þessar síðustu heimskulegu og sjálfsupphöfnu beiðnir
vöktu reiði guðsins í slíkum mæli að hann ýtti frá sér hvers kyns
vorkunnsemi og ákvað að refsa nú mannkyninu í eitt skipti fyrir
öll og dæma það um alla ókomna tíð til þyngri vesaldóms en það
hafði nokkru sinni reynt. I þessum tilgangi tók hann þá ákvörðun
að senda ekki aðeins Sannleikann til að dvelja tímabundið á með-
al manna, svo sem þeir höfðu beðið um, heldur að veita honum
þar eilífa búsetu. Hann áræddi síðan að úthýsa fögrum hugar-
burðunum, sem hann hafði áður veitt vist á jörðu, og gera Sann-
leikann að eilífum stjórnanda og höfðingja mannanna.