Skírnir - 01.09.1996, Blaðsíða 234
480
EIRÍKUR GUÐMUNDSSON
SKÍRNIR
máls. Ljóðaflokkurinn „Á hringvegi ljóðsins I-XII“ í Ljóð vega menn
(s. 7-27) er nokkurs konar stefnuskrá höfundar á þeim tíma; hvatning til
lesenda um að halda með skáldinu í hressilegt ferðalag út á hringveg
ljóðsins, burt „úr helvíti neysluskyldunnar / sljóleika margtuggunnar /
eitri dagblaðasúpunnar“ (s. 7). Flokkurinn minnir í mælsku sinni, bein-
skeytni og andófi gegn mærðarlegri tilveru borgaranna á fyrstu evrópsku
módernistana, ekki síst ljóðmæli rússneska skáldsins Vladimírs Majakov-
skí. I þessum þremur fyrstu bókum Sigurðar felst ábending um hversu
samofið tungumálið er menningu okkar og tilveru; upplifanir hversdags-
leikans verða ekki skildar frá því hvernig við færum þær í orð. Skáldið
gegnir því hlutverki að fægja rykfallið boðskiptatækið sem handhafar
kortlagðra lausmálssanninda hafa hernumið (sjá „Ljóðvegagerð V“,
1982, s. 13). I ljósi íslenskrar bókmenntasögu má segja að innhverfur og
miðleitinn tjáningarmáti atómskáldanna hafi vikið fyrir óheftri og gríp-
andi tjáningu sem er oftar en ekki ádeilukennd og íronísk.
Annar þríleikur Sigurðar leit dagsins ljós á níunda áratugnum. Um er
að ræða bækurnar Ljóð námu land (1985), Ljóð námu menn (1988) og
Ljóð námu völd (1990). I þeim verður ljóðmálið agaðra og hugmynda-
fræðin ef til vill nokkuð hefðbundnari en í eldri bókunum. Meira ber á
vísunum til landsins og sögu þjóðarinnar þótt glíman við skáldskapinn
og tungumálið sitji áfram í fyrirrúmi. Skáldskapurinn er orðinn þjóðlegri
án þess þó að tapa þeim alþjóðlega blæ sem einkennir allt höfundarverk
Sigurðar hvort sem litið er til sviðsmyndar (París, Reykjavík, London,
Akureyri) eða „innblásturs“ (Frakkland, Suður-Ameríka).7 Þessari
„þjóðrækni" til stuðnings má nefna ljóðaflokkana „Ljóðnámuland I-IX“
(s. 7-15) og „Ljóðnámumenn“ (s. 7-14) í samnefndum bókum, og ljóðin
„Einu konungar Islands“ og „Þoka“ í Ljóð námu völd (s. 9 og 66). I þess-
um bókum, einkum tveimur síðari, verður Sigurður ennfremur það skáld
hugljómunar og hrifnæmis sem Kristján Þórður Hrafnsson gerir að um-
fjöllunarefni í nýlegri grein um skáldið.8 Nægir hér að benda á ljóð eins
og „Sumardaginn fyrsta" (s. 27) og „Svarta rúskinnsskó" í Ljóð námu
menn (s. 56-57) og „Ávexti jarðarinnar" (s. 57), „Kirkjuskipið“ (s. 62),
„Morgunstund" (s. 68-69) og eftirfarandi „Júníljóð" í Ljóð námu völd:
7 Ég þakka Jóni Kalman Stefánssyni fyrir að benda mér blindum á annars
augljós tengsl milli ljóðsins „ímyndaði maðurinn" eftir Nicanor Parra, eitt
þekktasta ljóðskáld Chile, og ljóðs Sigurðar „Húsið mitt“ í Ljóð námu völd
frá 1990 (s. 7). Ljóð Parra í þýðingu Óskars Árna Óskarssonar birtist í tíunda
hefti tímaritsins Skýs í nóvember, 1993, s. 5-6.
8 Kristján segir: „Ef það er einhver ein lýsing sem á betur við skáldið Sigurð
Pálsson en önnur þá er hún sú að hann sé lofsöngvari, haldinn ríkri en kröfu-
harðri ást til lífsins. Sú tilfinning sem einna oftast virðist knýja hann til að
yrkja er hrifningin. Hann vill dásama og hylla.“ Sjá „Lífsháskinn felst I því að
hrífast. Lífsleysið felst í því að hrífast ekki“. Alþýðublaðið, 30. nóvember - 3.