Skírnir - 01.09.1996, Blaðsíða 108
354
DAVÍÐ ERLINGSSON
SKÍRNIR
eðlis og ættar, demónískur. Hann er um það bil að snúa öllum
stjórnmálum á Jótlandi til mesta ófarnaðar áður en Hrólfur kem-
ur til. Það segir nokkuð um eðli hans, að þegar hann hefur náð
ástum forsætisráðherrafrúarinnar í landinu, umhverfist hugarfar
hennar gersamlega og hún verður harla dökk yfirlitum, rétt eins
og dvergurinn sjálfur. Hún verður þá um það bil af hans veröld,
hans eðli, segir liturinn. Möndull er feiknlegur giljari og ástnautn-
armaður. Nafn hans hefur, auk tæknilegu merkingarinnar öxull
o.s.frv., einnig merkinguna reður, og frummerking indóevrópsku
rótarinnar telst vera að snúa. Læknirinn sem græðir meinið að
síðustu er því eiginlega ástarvættur eða -guð, Eros sjálfur, en eðli
hans er vitanlega demónískt. Ekki má heldur snúa sjónlausa aug-
anu að því, að möndull, ás, er líka ásinn sem endar í pólnum,
heimsskautinu sem alheimur stjörnuhiminsins og jarðar og okkar
sjálfra snýst um. I taki sínu til að ná aftur fótum og velli tekur
Hrólfur - sú er fígúran - á heimsásnum sjálfum. Við sjáum að
með því hálstaki nær hann því að snúa við öllu horfi almennra
mála í manheimi og mannheimi sögunnar til betri vegar. Frá því
að vera á hraðri leið til ... þess demóníska, upplausnar, helvítis,
snýr Hrólfur nú heimspólnum þannig til, að a.m.k. Jótlandi verð-
ur borgið um leið og hann kemst sjálfur á fætur; borgið verður
lífi forsætisráðherrans Bjarnar sem var dauðamaður, og kona
hans eignast aftur vit sitt og fegurð, þótt hún hefði áður verið far-
in að dökkna ískyggilega.
Hið mannlega eðli hetjunnar varð fyrir hættulegri þjökun af
yfirsjálfinu sem stefndi með hörðum vilja burt frá náttúrunni, þar
sem það demóníska á reyndar heimkynni sitt. Enginn sker sig úr
þeim tengslum og heldur velli. En Hrólfur bar gæfu til að komast
fram úr þessari hremmingu. Hamingjuhrólfur.
Við höfum orðið við ábendingu sögumanns Göngu-Hrólfs
sögu að finna okkur lykil að beita að táknmáli sínu. Lykilinn
fundum við í hinni algengu yfirfæringu milli efnisheims og and-
legs heims. Þegar við bárum hann að texta, virtist textinn opnast
og sýna okkur geðræna kreppu og lausn úr henni, kreppu sem
líklega er um það bil óhjákvæmileg regla í þroskaferli manna í líf-
inu, áður en setningur sá sem er traust og viðbúandi jafnvægi
milli vilar- og dularþátta persónuleikans næst. Þetta er saga hvers