Skírnir - 01.04.1997, Qupperneq 41
SKÍRNIR
HUNDURINN DÍÓGENES
35
Með þessari samantekt um það hvernig það er að vera hundur
lýk ég minni lubbalegu hundasögu:41
Hundur nokkur, sem þar lá, lyfti þá upp hausnum og reisti eyrun; það
var Argus, hundur hins þolgóða Odysseifs. Þann hund hafði Odysseifur
sjálfur uppalið forðum, án þess þó að hafa hans nokkur not, því
Odysseifur fór áður til ennar helgu Ilíonsborgar. Aður fyrr meir voru
ungir menn vanir að fara með hann á dýraveiðar, til að ná skógargeitum,
rádýrum og hérum; en núna, af því hússbóndi hans var ekki við, lá hann
umhirðingarlaus á stórum haug, sem var fyrir framan hússdyr Odysseifs;
hafði þangað verið borinn mikill haugur undan múlösnum og nautum,
og ætluðu þrælar Odysseifs seinna meir að færa út mykjuna til að teðja
hinn mikla konungsvöll, er Odysseifur átti. Á þessum haug lá hundurinn
Argus, og skreið nú kvikur. Nú sem hundurinn varð þess var, að
Odysseifur var þar kominn, þá flaðraði hann rófunni og lét bæði eyrun
lafa, en hafði nú engan máttinn að skreiðast til hússbónda síns. Þá leit
Odysseifur undan og þerraði af sér tár, átti hann hægt með að gera það,
svo Evmeus yrði eigi var við. Síðan tók hann til orða: „Þetta er næsta
undarlegt, Evmeus, þar liggur hundur á hauginum, sem að vísu hefir
ágætlegt vaxtarlag, en hitt veit eg eigi til sanns, hvort hann hefir verið
eins hvatur til hlaups, eins og hann er vaxinn hlaupalega, eða hann er rétt
sem aðrir stofurakkar eru vanir að vera, þeir er eigendurnir ala sér upp til
gamans“.
Evmeus svínahirðir svaraði honum og sagði: „Þar liggur hundur þess
manns, sem dáinn er langt, langt úti í löndum. Ef hann væri nú eins
þreklegur og eins til afreks, eins og hann var, þegar Odysseifur skildi við
hann, þá hann fór til Trójuborgar, þá mundi þér gefa á að líta, þegar þú
sæir, hvað hann er bæði frár og knár; því ekkert kvikindi, sem hann lagði
í eineld, gat forðað sér fyrir honum innst inni í skógum, þar sem runn-
arnir voru þéttastir, því hann var allra hunda sporvísastur. Nú er þessi
hundur aumlega staddur. Það sér á, að lánardrottinn hans er dáinn langt í
burt frá föðurlandi sínu; því ambáttirnar, sem aldrei hirða um neitt,
leggja öngva rækt við hann. Það er segin saga, þegar hússbændurnir eru
ekki uppi yfir þrælunum, þá nenna þeir ekkert handtak að vinna af því,
sem þeir eiga að gera; því hverr sá maður, sem hinn háþrumandi Seifur
hneppir í ánauð, verður ekki nema hálfur maður til dyggðar og trú-
mennsku upp frá því“.
41 Eldri gerð þessarar ritgerðar var flutt sem fyrirlestur við Háskóla íslands árið
1994. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka Heimspekideild fyrir frábæra gest-
risni. Þýðingin úr Odysseifskviðu er eftir Sveinbjörn Egilsson, Kristinn
Ármannsson og Jón Gíslason bjuggu til prentunar, (Reykjavík, 1948), bls.
271-73.