Skírnir - 01.04.1997, Page 43
GÍSLI PÁLSSON
Fortíðin sem framandi land
Islenskar fornbókmenntir í Ijósi mannjræðinnar
UNDANFARNA áratugi hefur fjölmennur hópur fræðimanna og
-kvenna fjallað um íslensk fornrit sem bókmenntaverk, þar sem
athyglinni er beint að textanum sjálfum fremur en því samfélagi
sem hann er sprottinn úr. Enda þótt þessi rannsóknarhefð hafi
lagt margt af mörkum, hefur hún verið tiltölulega þögul um
annað sem máli skiptir, þar á meðal gildi fornritanna fyrir mann-
fræðilegar rannsóknir. Á síðustu árum hafa nokkrir mannfræð-
ingar, sagnfræðingar og bókmenntafræðingar lagt drög að
rannsóknum á íslenskum fornbókmenntum sem setja mannlífið
er fornritin endurspegla ofar textanum sjálfum. Frá þeirra sjónar-
miði eru fornbókmenntirnar gagnlegar „etnógrafískar" heimildir,
sambærilegar við þau gögn sem mannfræðingar eru vanir að afla á
vettvangi.1 Þrátt fyrir annmarka þeirra sem sögulegra heimilda
eru þær auðug uppspretta margs konar upplýsinga um samfélag
og menningu á miðöldum, og um leið ættu þær að nýtast vel við
samanburðarrannsóknir. Bandaríski mannfræðingurinn Richard
Bauman hefur í þessu sambandi bent á, að undanfarin ár hafi fé-
lagsvísindin orðið fyrir miklum áhrifum frá bókmenntafræðing-
um, þar sem í vaxandi mæli hefur verið litið á menningu eins og
um texta væri að ræða, og „ef við getum beitt bókmenntafræði-
legum líkönum í rannsóknum á samfélaginu ættum við einnig að
1 Orðið etnógrafía er notað í a.m.k. þrenns konar merkingu: (1) um vettvangs-
lýsingu mannfræðings sem byggð er á þátttökuathugun, þ.e.a.s. samtímalýs-
ingu á lifnaðarháttum tiltekins mannhóps, (2) um gagnasafn mannfræðinnar
sem samanburðarrannsóknir á ólíkum samfélögum taka mið af, og (3) um fé-
lagslega eða menningarlega mannfræði, eða þann þátt mannfræðinnar sem
fjallar um manninn sem félagsveru. I þessari ritgerð er orðið etnógrafía aðal-
lega notað í þeirri merkingu sem fyrst var greind. Á íslensku hefur orðið
þjóðlýsing stundum verið notað í þessu sambandi, en ég hef horfið frá því
vegna þess að stofninn þjóð á ekki alltaf við.
Skírnir, 171. ár (vor 1997)