Skírnir - 01.04.1997, Page 48
42
GÍSLI PÁLSSON
SKÍRNIR
rannsóknir á goðaveldinu og norrænum mönnum á miðöldum
njóta ekki þeirra forréttinda mannfræðinga að „komast aftur á
vettvang“ til að kanna betur veruleika heimamanna. Engu að síð-
ur draga fornbókmenntirnar, ekki síst Sturlunga, gjarna upp lif-
andi mynd af raunverulegum persónum, og raunar miklu frekar
en af reglum, hefðum og gildum.
Fornbókmenntirnar hafa ýmsa annmarka sem heimildir, en
eru þær það eina sem byggjandi er á? Fyrir sumum fræðimönn-
um eru sögurnar miðaldamenningin sjálf. Þannig telur danski
bókmenntafræðingurinn Preben Meulengracht Sorensen tómt
mál að tala um íslenska menningu handan við sögurnar; „það eru
ekki lengur neinar leiðir að veruleikanum aðrar en sögurnar sjálf-
ar“ (1992:28). Slíkar skoðanir, mótaðar af bókmenntarannsókn-
um og póstmódernískri kenningu, ganga að mínu viti of langt.
Nútíma etnógrafía og fornleifafræði geta vissulega bætt miklu við
þær upplýsingar sem greina má í sögunum. Northrop Frye gerir
gagnlegan samanburð á rannsóknum á Islendingasögum og Bibl-
íurannsóknum:
okkur miðar ekkert áfram án nýrrar fornleifafræðilegrar vitneskju; slík
vitneskja ætti að öðlast það áhrifavald sem fornritin höfðu áður. A sama
hátt, svo vikið sé að sagnfræði biblíutímans, er helsta kennivald sögunnar
ekki Biblían sjálf (hin ritaða heimild hefur verið fullnýtt fyrir löngu)
heldur sú vitneskja sem hægt er að fallast á að fornleifafræðin geti ennþá
dregið fram í dagsljósið. (Frye 1982:43)
Ný kynslóð fornleifafræðinga og mannfræðinga, bæði íslenskra
og erlendra, freistar þess nú að kanna vitnisburð tiltækra gagna í
þessum anda, með nýstárlegar spurningar og sjónarmið í huga
(sjá t.d. McGovern 1990, Adolf Friðriksson 1994, Bjarna F. Ein-
arsson 1994, Jón Hauk Ingimundarson 1995 og Agnar Helgason
1996).
Ljóst er að „vettvangsrannsóknir“ okkar á miðöldum eru
miklum annmörkum háðar. Lítum til að mynda á kynferði. Á
sama hátt og raddir heimamanna hafa stundum hvatt (ef til vill
neytt) þá sem rannsakað hafa höfðingjadæmi annars staðar í
heiminum til að einblína á pólitískt leiðtogahlutverk karla, veita
íslensku fornsögurnar valdaátökum karla óþarflega mikla athygli.