Skírnir - 01.04.1997, Side 61
SKÍRNIR
FORTÍÐIN SEM FRAMANDI LAND
55
íslenskar fornsögur eru oft skreyttar með framandlegu efni.10
Þetta þarf hins vegar ekki að draga úr gildi þeirra sem mannfræði-
legra heimilda. Enda þótt höfundarnir kunni að hafa reitt sig
töluvert á erlenda texta og mælskulist erlendra höfunda, og í
sumum tilvikum hafi þeir einfaldlega þýtt eða staðfært evrópsk
verk, hljóta verk þeirra á einhvern hátt að spegla raunveruleika
Islendinga á miðöldum. Á sama hátt veita erlendar þýðingar á ís-
lenskum fornbókmenntum í senn vitneskju um íslenskan veru-
leika og samfélag þýðendanna hverju sinni. Japanskar þýðingar á
sögunum, bæði í formi texta- og myndabóka, bæta gjarna fram-
andlegum stefum inn í heim víkinga svo að hann birtist japönsk-
um lesendum sem sannfærandi frásögn. Halldór Stefánsson
(1993) hefur leitt rök að því að höfundar japanskra myndabóka
hafi farið afar frjálslega með sögurnar til að tryggja lipra, nothæfa
„þýðingu". Þrátt fyrir fjarlægðina, bæði í tíma og rúmi, virðist
heimur sagnanna hafa átt greiðan aðgang að japönskum lesend-
um, sem eins konar vísindaskáldskapur.
I mannfræði hefur sú kenning átt miklu fylgi að fagna að
sérhver menning lúti sínum eigin lögmálum. Mannfræðingar hafa
10 Surnar frásagnir í fornritunum hafa eflaust verið byggðar á beinni reynslu nor-
rænna ferðamanna. Eiríks saga vísar t.d. til frumbyggja á austurströnd Norð-
ur-Ameríku. Vitað er að norrænir landnemar frá Islandi og Noregi tóku sér
bólfestu til lengri eða skemmri tíma á Grænlandi og í Norður-Ameríku (sjá
McGovern 1990). Enda þótt íslenska hugtakið skrœlingi hafi verið býsna
gildishlaðið (það merkti í senn „barbari" og „frumbyggi Grænlands"), eru frá-
sagnir fornbókmenntanna af nágrönnunum í vestri mun raunsærri en þær er
skráðar voru um fjarlægari heima. Alexanders saga (1925:163) segir að íbúar
Indlands hafi verið loðnir „sem dyr med ymissum litum. níu feta hafa. án
allra klæda [...] og lifir med rán fisk og vatn. [...] Þar varu þeir menn er
cenocephali heita. þeir hafa hundz hofud ok geyja". I Hauksbók (1892-
96:165-67) segir frá „marghattuðum þioðum"; einn hópurinn er þeirrar nátt-
úru gerður að „eigi sakar orma eitur“, sumir hafa „vor hína neðri sua míkla at
þer kasta henni aftr yfir hofuð ser við solu oc skur meðan þeír sofa“, og enn
aðrir „eru tungu lausir oc merkia alt at bendingum". Sögur af þessu tæi áttu
rætur að rekja til klassískra ritverka landfræðinga og alfræðibóka fyrri tíma.
Um síðir bárust þær til Islands með norrænum ferðamönnum, víkingum og
kaupmönnum, um Rússland eða Miðjarðarhafslöndin, og urðu hluti íslenskra
verka, ekki síst svonefndra „lygisagna“. Tilvísanir fornbókmenntanna til ann-
arra samfélaga eru þess vegna oft og tíðum goðsagnakenndar, fengnar að láni
úr evrópskum textum. Þetta á ekki aðeins við um heimsmynd Islendinga;
svipaðra hugmynda gætti meðal annarra Evrópumanna (Hodgen 1971).