Skírnir - 01.04.1997, Page 62
56
GÍSLI PÁLSSON
SKÍRNIR
tíundað rökin fyrir slíkri „menningarlegri afstæðishyggju“ og um
hana er margt gott að segja. A hinn bóginn hefur hún einnig
djúpstæð vandamál í för með sér. Ef menn taka hana bókstaflega
standa þeir frammi fyrir tveimur kostum og er hvorugur góður.
Annars vegar má líta svo á að hver menning sé afmarkaður hugar-
heimur. Erfitt sé að sjá hvernig fólk geti talast við þvert á menn-
ingarleg landamæri og mannfræðileg „þýðing“ sé þar af leiðandi
nánast óhugsandi. Hinn kosturinn er sá, og oftar en ekki verður
hann fyrir valinu, að gera ráð fyrir hlutlausum áhorfanda (mann-
fræðingi) handan við menningu og samfélag, rannsakanda með
vitsmunalega hæfileika sem öðrum séu ekki gefnir. Samkvæmt
þessu sjónarmiði er menningarleg „þýðing“ aðeins fyrir útvalda.
Sömu sögu er að segja um tilraunir til að skilja liðna tíma. Ef for-
tíðin er fullkomlega framandi land er erfitt að sjá hvaða tilgangi
það gæti þjónað að reyna að skilja hana. Getum við ekki, þegar
allt kemur til alls, sagt býsna margt um þetta land, eins og ég hef
leitt rök að hér að framan?
Jay O’Brian og William Roseberry (1991) halda því fram að
söguspeki, sem byggð er á menningarlegri afstæðishyggju, geri
óþarflega mikið úr fjarlægð fortíðarinnar, en um leið geri hún ráð
fyrir áhorfanda (sagnfræðingi) sem sé þess megnugur að sigrast á
takmörkum tímans, eins og hann væri utan við alla sögu. Ekki er
ólíklegt, svo mótsagnakennt sem það annars kann að virðast, að
söguspeki afstæðishyggjunnar eigi að einhverju leyti rætur að
rekja til vestrænnar nýlendustefnu. I bók sinni Europe and the
People Without History (1982) hefur bandaríski mannfræðingur-
inn Eric Wolf bent á að í orðræðu vestrænna nýlenduvelda hafi
yfirleitt verið látið að því liggja að þegnar nýlendnanna hafi ekki
þekkingu á eigin sögu. Þeir hafi ekki sögulegt landvistarleyfi
handan við stund og stað líkt og nýlenduherrarnir. A undan-
förnum árum hefur iðulega verið vikið að þeim vanda sem
fólginn er í að „gefa“ þessu fólki fortíð sína aftur í formi „sagn-
fræði“. Þannig spyr Martha Kaplan hvort það „geri sér aðeins
grein fyrir sögu sinni sem undirokaðir þegnar, njörvað í tengsl
nýlenduherra og nýlendu?" (1990:3). Sagnfræði virðist óhjá-
kvæmilega flækt í stjórnmálavafstur með einhverjum hætti, bund-
in af stað og stund.