Skírnir - 01.04.1997, Page 82
76
DAGNÝ KRISTJÁNSDÓTTIR
SKÍRNIR
Já, þessi mynd sem var tekin heima hjá honum haustið sem við giftum
okkur, hún ætti líklega að koma fyrst. Við fórum vestur því hann ætlaði
að sýna kærustuna sína. Það var í þeirri ferð sem ég sá nautið. Myndin er
orðin máð. Þetta hlýst af því að hugsa ekki betur um myndasafnið sitt en
samt sést greinilega að þetta erum við. (69)
Hvaða naut er þetta í miðri myndlýsingunni? Við vitum ekki að
það skiptir máli og lesum áfram. I sjötta hluta sögunnar eftir
millikafla um húsmóðurhlutverkið og tengdamóðurina segir:
hún ætti bara að sjá óreiðuna á þessu myndasafni. Þetta er eina myndin
sem til er frá þessari heimsókn þar sem hann stendur í báða fætur á miðri
mynd. Það var í þessari ferð sem ég sá nautið. (71)
Svo kemur lýsingin á gönguferð kærustuparsins út fyrir þorpið,
þau ganga eftir einstigi, sjór fyrir neðan, brekka fyrir ofan og þá
drífur unnustinn konuna allt í einu upp í brekkuna því að nautið
er að koma eftir einstiginu hálf dragandi bónda nokkurn við hlið-
ina eða á eftir sér. Fyrst verður konan hissa á því hve lítið nautið
er. Svo fyllist hún virðingu fyrir þeim ógurlega krafti sem knýr
dýrið: „samanrekið, vöðvahnýtt með grimman haus á sverum
svíra“, fnæsandi og drynjandi:
uns nautið var ekkert annað en þetta blinda afl sem hafði ekki annan til-
gang en bera það áfram og sem snöggvast fannst mér að vöðvarnir, lapp-
irnar, svírinn, blóðhlaupin augun og rymjandi barkinn hlytu að vera til
trafala á þessari þarfagöngu og það hefði verið nóg að koma með þetta
eina líffæri hlaupa með það sem logandi blys boðleið frá bæ til bæjar ver-
öldina á enda, þennan blinda drambláta kraft sem jafnvel má sjá votta
fyrir á sléttrökuðum holdmiklum karlmönnum með fölar kinnar og
hringi á hvítum höndum á daglegum göngum milli skrifstofunnar og
bankans og þaðan í þrjúkaffi á plussklæddum veitingahúsum
svo stóð hann allt í einu í dyrunum á herberginu þar sem ég lá með
nýfætt barnið í handarkrikanum. (72)
Nautið er augljóst fallos-tákn; tákn styrks, getu en fyrst og
fremst valdsins, sem er aldrei afstætt, alltaf blint af því að það þarf
ekki að taka tillit til réttar annarra af þeirri einföldu ástæðu að
aðrir hafa engan rétt, réttlætið er það sjálft. Þetta er tákn hús-
bóndans eða herrans en við höfum séð hvernig allir millikaflarnir